Innlent

Rafmagnsbilun ruglar tímaskyn Húsvíkinga

Stígur Helgason skrifar
"Þetta gerist sem betur fer sjaldan,“ segir rafvirkinn Úlfar Vilhjálmsson, sem hefur unnið í Laxárvirkjun í sautján ár.
"Þetta gerist sem betur fer sjaldan,“ segir rafvirkinn Úlfar Vilhjálmsson, sem hefur unnið í Laxárvirkjun í sautján ár.
„Við komum allavega ekki of seint,“ segir Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri í Norðurþingi, þar sem allar rafknúnar klukkur tóku upp á því að flýta sér eftir óveðrið á sunnudaginn var.

Umræður hafa sprottið um málið á milli Húsvíkinga á Facebook, þar sem allir hafa sömu sögu að segja; útvarpsvekjarar og rafmagnsklukkur á eldavélum og ofnum hafi flýtt sér um nokkrar mínútur á sólarhring – allt frá sjö og upp í tuttugu.

„Ég hef tekið eftir þessu sjálfur síðustu daga og einmitt verið að velta því fyrir mér hvað veldur,“ segir Bergur Elías. „En við höfum svo sem ekki litið á þetta sem stórkostlegt vandamál.“

Skýringuna má hins vegar rekja til óveðursins um liðna helgi, sem olli bilun í dreifikerfi Landsnets, líklega uppi á Vaðlaheiði. Þetta segir Úlfar Vilhjálmsson, rafvirki í Laxárvirkjun.

Bergur Elías Ágústsson
Úlfar segir að eftir bilunina í línunni á heiðinni hafi Laxárvirkjun þurft að sjá drjúgum hluta Norðausturlands fyrir rafmagni, allt frá Bakkafirði og vestur í Fnjóskadal.

Við það geti tíðnin á rafkerfinu raskast, sem erfitt sé að halda jafnstöðugri og gert er á dreifikerfi Landsnets. „Rafmagnsklukkur sem eru tengdar við 240 voltin stýrast af tíðninni, ganga eftir fimmtíu riðum, en tíðnin hefur verið heldur há hjá okkur,“ útskýrir Úlfar.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur fyrir en gerist þó sem betur fer sjaldan, að sögn Úlfars. Hann segir engan tækjabúnað í hættu vegna þessa og að þetta hafi í raun engin áhrif á neitt annað en rafmagnsknúnar klukkur.

„Þetta gerir það bara að verkum að fólk kemur aðeins of snemma í vinnu, sem gerir ekkert til. Menn vakna aðeins fyrr á morgnana – þeir hafa bara gott af því,“ segir Úlfar.

Að sögn Úlfars stóð til að fara upp á Vaðlaheiði í gærkvöldi og freista þess að laga bilunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×