Skoðun

Hugleiðingar leikmanns um flugvöllinn

Felix Rafn Felixson skrifar
Að undanförnu hefur mikið verið rætt og skrifað um flugvöllinn í Vatnsmýrinni og framtíð hans. Margar skoðanir hafa komið fram og sitt sýnist hverjum. Ég er sammála sumu en andvígur öðru eins og gengur og gerist. Ég er á þeirri skoðun að flugvöllurinn þurfi að vera sem næst sjúkrahúsi allra landsmanna og stofnunum þeim sem landsmenn þurfa að leita til. Hvort flugvöllurinn þurfi að vera nákvæmlega þar sem hann er get ég ekki lagt mat á, því ég hef ekki þá þekkingu á flugi og flugaðstæðum sem þarf til að taka þá ákvörðun.

En ég hef nokkrar hugmyndir sem mig langar til að koma á framfæri. Fyrst má nefna að hafa Miklubraut neðanjarðar frá Ártúnsbrekku að Sæmundargötu. Við það myndi verða til heilmikið landsvæði sem nýta mætti til þéttingar íbúðabyggðar. Í framhaldi af því má skoða hvort möguleiki er á því að færa flugvöllinn til suðurs og minnka umfang hans. Það verður þó að gera í samráði við sérfræðinga á sviði flugmála. Til dæmis að færa þá flugbraut sem liggur næst Hringbraut. Þá skapast svigrúm til að byggja þar og í átt að Háskólanum, Landspítalanum og Snorrabraut. Að lokum væri hægt að þurrka upp tjörnina sunnan Skothúsvegar og jafnvel helming af henni norðan megin og byggja þar.

þessar hugmyndir eru að sjálfsögðu ekki rökstuddar með tölulegum upplýsingum eða einhverjum skýrslum en eru frekar settar fram í þeim tilgangi að benda á að í lagi er að koma fram með aðrar hugmyndir en einungis þær að flugvöllurinn eigi að fara eða eigi að vera. Það hlýtur að vera leið til þess að skapa sátt um þetta málefni og ég vil nota tækifærið til þess að hvetja borgaryfirvöld, ríkisvaldið, flugumferðarstjórn og alla þá sem hagsmuna eiga að gæta til að stofna samráðshóp til að leita lausna í stað þess að rífast hver í sínu horni og finna hinum allt til foráttu. Fá fagmenn og sérfræðinga til þess að vinna að lausnum sem allir geta sætt sig við. Í þessu máli eins og öllum öðrum þarf að gera málamiðlanir, annars næst aldrei viðunandi niðurstaða. Sama hvaða skoðun við höfum á flugvellinum þá hljótum við öll að vilja leysa þetta mál í sátt.




Skoðun

Sjá meira


×