Lífið

Bregður sér í hlutverk Ástríðar í annað sinn

Sara McMahon skrifar
Ilmur Kristjánsdóttir fer með hlutverk Ástríðar í samnefndum sjónvarpsþáttum.
Ilmur Kristjánsdóttir fer með hlutverk Ástríðar í samnefndum sjónvarpsþáttum. Fréttablaðið/Valli
„Það var rosalega gaman að bregða sér aftur í hlutverk Ástríðar, sérstaklega eftir svolitla pásu. Það var líka mjög gaman að skrifa handritið með meðhöfundum mínum og að velta því fyrir sér hvar Ástríður væri stödd í lífinu í dag,“ segir leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir sem fer með hlutverk Ástríðar í samnefndum sjónvarpsþáttum sem hefja göngu sína að nýju á sunnudag.



Í nýju þáttaröðinni er Ástríður komin í stöðu yfirmanns en þykir heldur ströng og fúllynd sem slíkur. „Hún er ekki að vinna í banka lengur, heldur starfar fyrir skilanefnd, hvað svo sem það þýðir,“ segir Ilmur. „Davíð er hættur með henni og hún er svolítið bitur vegna þess, en svo þroskast hún, enda rekst hún stöðugt á veggi við það að vera þver og fúl.“



Aðspurð segist leikkonan ekki vera búin að skipuleggja frumsýningarpartí en kveðst virkilega spennt fyrir því að sjá fyrsta þáttinn á sunnudag. „Mér er boðið í matarboð, ætli ég plati ekki fólkið til að horfa á þáttinn með mér. Ég er mjög spennt fyrir að sjá viðbrögð fólks við þáttunum. Ég er sjálf svo ánægð með útkomuna og vona að aðrir verði jafn ánægðir og ég.“



Þegar hún er að lokum spurð hvort hún gæti hugsað sér að bregða sér í hlutverk Ástríðar í þriðja sinn segist Ilmur vel geta hugsað sér það. „Svona persónur virðast alltaf eiga sér framhaldslíf. Þetta er aðallega spurning um tíma.“

Fyrsti þáttur Ástríðar verður sýndur á Stöð 2 klukkan 20.15.

Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr fyrri þáttaröð Ástríðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.