Viðskipti innlent

Ísfélagið greiddi 1,2 milljarða króna í arð

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Guðbjörg M. Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélagsins, á ársfundi LÍÚ á síðasta ári.
Guðbjörg M. Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélagsins, á ársfundi LÍÚ á síðasta ári. Fréttablaðið/Anton
Í nýlega birtum ársreikningi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum kemur fram að félagið hafi hagnast um 28,3 milljónir Bandaríkjadala á síðasta rekstrarári. Í íslenskum krónum nemur hagnaðurinn rúmlega 3,4 milljörðum króna. Hagnaður félagsins dróst saman um rúm 23 prósent milli ára.

Þá kemur einnig fram í reikningnum að arður til hluthafa á síðasta ári hafi numið 9,9 milljónum dala, eða sem svarar 1,2 milljörðum króna.

Stærsti eigandi Ísfélagsins með 88 prósenta hlut er ÍV fjárfestingarfélag, en samkvæmt upplýsingum Creditinfo á Fram ehf. þann hlut að fullu. Fram ehf. er að 91,7 prósentum í eigu Guðbjargar M. Matthíasdóttur, sem samkvæmt því hefur í fyrra fengið tæpar 970 milljónir króna greiddar í arð.

Greiddur arður á síðasta ári var heldur meiri en árið áður. Þá námu arðgreiðslur 6,9 milljónum dala, eða sem svarar tæpum 840 milljónum króna. Fram kemur í ársreikningnum að stjórn Ísfélagsins hafi einnig ætlað að leggja til við aðalfund í sumar að greiddur yrði út arður á þessu ári.

Í skýrslu stjórnar Ísfélagsins er vísað til þess að samkvæmt efnahagsreikningi nemi eignir félagsins ríflega 231 milljón dala, eða sem svarar um 28 milljörðum króna. Bókfært eigið fé Ísfélagsins í lok síðasta rekstrarárs var 101,4 milljónir dala, eða 12,3 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 43,9 prósent.

Fram kemur að í árslok 2012 hafi 136 átt hlut í Ísfélaginu, en ÍV fjárfestingarfélag er eini hluthafinn sem á yfir tíu prósenta hlut.

Áður hefur komið fram að önnur útgerðarfyrirtæki hafa skilað umtalsverðum hagnaði á síðasta rekstrarári. Síldarvinnslan í Neskaupstað hagnaðist um sjö milljarða króna og greiddi eigendum sínum tvo milljarða í arð. Samherji skilaði hagnaði upp á 16 milljarða á síðasta starfsári og HB Grandi hagnaðist um sem svarar 2,4 milljörðum króna.

Alþingi samþykkti í sumar lög um lækkun veiðigjalds. Það hefur í för með sér að tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum fyrir aflaheimildir verða 3,2 milljörðum króna lægri á árinu 2013 en upphaflega var ráð fyrir gert í fjárlögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×