Viðskipti innlent

Samið um aðkomu Ísfélagsins

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Guðbjörg Matthíasdóttir á ársfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) í fyrra.
Guðbjörg Matthíasdóttir á ársfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) í fyrra. Fréttablaðið/Anton
Ísfélagið í Vestmannaeyjum á í viðræðum um kaup á hlut í Kvos hf, móðurfélagi prentsmiðjunnar Odda. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru viðræðurnar vel á veg komnar og búist við niðurstöðu úr þeim um miðjan mánuðinn.

Guðbjörg M. Matthíasdóttir útgerðar- og athafnakona í Vestmannaeyjum er helsti eigandi Ísfélagsins. Hún er jafnframt stærsti eigandi Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, í gegn um félögin Hlyn A og Ísfélagið. Samtals eiga félögin tvö tæplega 30 prósent í Árvakri.

Ekki liggur fyrir hversu stóran hlut Ísfélagið vill eignast í Kvos, en heimildir blaðsins herma að nýrra hluthafa hafi verið leitað um nokkurt skeið. Í kjölfar hruns krónunnar árið 2008 eignuðust kröfuhafar Kvos árið 2010.

„Með því að leggja fram nýtt hlutafé gátu nokkrir úr fjölskyldunum sem stofnuðu fyrirtækið fyrir tæpum 70 árum eignast prentsmiðjuna á ný. Enginn fékk neitt gefins í afskriftum fjármálastofnana og enginn tapaði eins miklu og gömlu eigendurnir,“ segir á vef Kvosar.

Félagið varð til í ársbyrjun 2006 sem móðurfélag prentsmiðjunnar Odda, Gutenberg, Kassagerðarinnar og fleiri fyrirtækja í prentiðnaði á Íslandi og erlendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×