Lífið

Stundum festist skyr í skegginu

Ása Ottesen skrifar
Ekkert lát virðist vera á skeggsöfnun íslenskra karlmanna, sem safna andlitshári í öllum litum, stærðum og gerðum.

Fréttablaðið tók tali nokkra herramenn sem eiga það sameiginlegt að vera hrifnir af skegginu sínu.

1. Hvenær byrjaðir þú að safna skeggi?

2. Hver er helsti kosturinn við að vera með skegg?

3. Hver er helsti ókosturinn við að vera með skegg?

4. Finnst þér skeggið passa við allt?

5. Fylgir mikil umhirða skegginu?

6. Hvar kaupir þú helst föt á Íslandi?

7. Ætlar þú að halda skegginu?

Baldvin Þormóðsson
Baldvin Þormóðsson

Starfsmaður á auglýsingastofunni Fíton

Aldur 19 ára

1. Ég byrjaði að safna skeggi þegar ég var að hitta stelpu árið 2011. Við vorum saman en ég klúðraði því sambandi og ákvað að raka mig ekki fyrr en ég fengi hana aftur. Það tókst og ég hef verið með skegg síðan.

2. Helsti kosturinn við skeggið er að það gefur manni meiri karakter. Svo er ég of ungur til að djamma á skemmtistöðum en kemst frekar inn ef ég er með skegg. Mér finnst einnig að það glæði andlitið meira lífi að vera með skegg.

3. Það er kannski smá galli að þegar ég borða skyr, þá festist það í skegginu. Ég er með frekar stutt skegg svo þetta er ekki stórt vandamál.

4. Ég klæði mig ekki út frá skegginu en maður er kannski ekki eins fínn þegar maður er með skegg. Sem er jákvætt fyrir mig því ég var stundum of fínn þegar ég var ekki með skegg.

5. Ég snyrti það tvisvar í viku svo það verði ekki sítt og krullað. En það er aftur á móti minni umhirða að vera með skegg, áður þurfti ég að raka mig nánast daglega.

6. Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar, Kron, GK Reykjavík og Spútnik.

7. Já, klárlega ætla ég að gera það.

Ásgeir Börkur Ásgeirsson
Ásgeir Börkur Ásgeirsson

Fótboltamaður

Aldur 26 ára

1. Ég hef alltaf verið að safna skeggi en fyrir ári safnaði ég í góða sex mánuði og var þá kominn með frekar mikið skegg. En svo rakaði ég mig og er að byrja að safna aftur núna.

2. Kosturinn er aðallega hvað þetta er töff. Ég hreinlega elska þessa skeggmenningu.

3. Gallinn er að þegar ég borða þarf ég alltaf að vera með þurrkur á mér því maturinn á það til að festast í skegginu.

4. Ég klæði mig öðruvísi þegar ég er með skegg, það er ákveðinn stíll sem fylgir skeggmenningunni. Ég fer frekar í skyrtu og gallabuxur. Ekki það að ég sé mikill tísku­mógúll en ég fylgi tískunni sem fylgir skeggmenningunni.

5. Þegar ég er að safna læt ég það nánast alveg vera. Fer þó af og til og læt klippa aðeins í það til að móta það og þá fer ég annaðhvort niður í Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar eða á Hárgreiðslustofuna Skugga. Ég er annars duglegur að greiða það og er nýlega farinn að nota skeggolíu, sem er alveg brilljant.

6. Ég versla úti um allt en aðallega í Susie Q og Spútnik. Annars versla ég voðalega mikið þegar ég fer til útlanda.

7. Já, það ætla ég að gera.

Snæbjörn Ragnarsson

Samfélagsráðgjafi

Aldur 35 ára

1. Ég hef safnað skeggi alveg frá því það byrjaði að koma, þá var ég í kringum 16 ára gamall.

2. Skeggið er þarna frá náttúrunnar hendi og maður á að safna þessu. Annars er ég mjög heitfengur og það er hálf heimskulegt að vera með þetta.

3. Mér finnst ekki vera margir ókostir en það er kannski óheppilegt þegar ég festi sinnep í skegginu, það á til að koma fyrir.

4. Já, þetta fer mínu lífsformi mjög vel. Ef ég fer í mjög fínar veislur þá kannski greiði ég skeggið.

5. Ég hirði það ekki mikið, er mjög latur við það. Fer til Stjúra hárgreiðslumanns á tveggja til þriggja vikna fresti og læt hann snyrta allt sem er fyrir ofan háls. Þess á milli tek ég ekki einu sinni upp greiðu.

6. Ég kaupi fötin mín bara þar sem þau fást, annars versla ég mikið við Kormák og Skjöld. Mamma er líka dugleg að prjóna lopapeysur á mig.

7. Já.

Skjöldur Sigurjónsson
Skjöldur Sigurjónsson

Eigandi Ölstofu og Herrafataverslunar Kormáks og Skjaldar

Aldur 48 ára

1. Það er mjög lengi, ég hef verið með skegg síðan á síðustu öld.

2. Þeir eru mjög margir.

3. Mér finnst ekki vera neinir ókostir.

4. Já, skeggið prýðir allan klæðnað.

5. Alls ekki, ég snyrti það reglulega og klippi til svo það sjáist í varirnar.

6. Ég versla að sjálfsögðu í Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar.

7. Ég hef ekkert hugsað út í það. Það má vel vera að ég láti það fjúka einn daginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.