Handbolti

Þetta er bara fyrsta skrefið

Eiríkur Stefan Ásgeirsson skrifar
Bjarki Már skorar hér mark fyrir HK gegn FH á síðasta tímabili. Ekkert verður af því að hann spili með Hafnfirðingum í vetur.
Bjarki Már skorar hér mark fyrir HK gegn FH á síðasta tímabili. Ekkert verður af því að hann spili með Hafnfirðingum í vetur. fréttablaðið/valli
Bjarki Már Elísson, 23 ára gamall hornamaður, er genginn til liðs við þýska úrvalsdeildarfélagið Eisenach en hann gerði eins árs samning við félagið í gær. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari liðsins og Hannes Jón Jónsson hefur gegnt lykilstöðu í því.

„Ég ræddi við þá fyrst í janúar en það kom svo ekkert meira úr því. Ég veit samt að Alli þjálfari var að berjast fyrir því að fá mig hingað út,“ segir Bjarki Már í samtali við Fréttablaðið. Þessi öflugi vinstri hornamaður varð Íslandsmeistari með HK í fyrra. Hann fór svo frá liðinu í vor og samdi við FH með þeim fyrirvara að hann gæti farið út ef tækifærið byðist.

„Þetta gerðist svo mjög hratt þegar þetta fór aftur af stað í síðustu viku. Ég var byrjaður að æfa á fullu með FH og vel gíraður fyrir tímabilið. En FH-ingar vissu vel að ég hefði áhuga á að fara út og þeir sýndu þessu mikinn skilning,“ segir Bjarki Már sem neitar því ekki að með þessu sé gamall draumur að rætast.

„Ég lít á þetta sem tækifæri til að sanna mig í bestu deild í heimi. Eisenach mun þurfa að berjast fyrir lífi sínu í þessari sterku deild en fyrsta verkefni mitt verður að vinna mér inn sæti í liðinu. Svo vonast ég til að fá eins margar mínútur og mögulegt er.“

Hann vonast til að þessi samningur verði aðeins sá fyrsti af mörgum sem atvinnumaður í handbolta.

„Þetta er bara fyrsta skrefið. Ég þori alveg að segja að ég stefni að því að verða með bestu leikmönnum heims í minni stöðu og ég tel að þetta sé skref í rétta átt,“ segir hann.

Bjarki Már er spenntur fyrir því að vinna með Aðalsteini sem hefur náð að byggja upp öflugt lið í Eisenach.

„Aðalsteinn er metnaðarfullur þjálfari og með háleitar hugmyndir. Mér líst líka vel á að spila með Hannesi Jóni sem hefur leitt mig í gegnum þessa fyrstu tvo daga hér úti. Ég tel að ég sé í góðum höndum hjá þeim.“

Bjarki á nokkra A-landsleiki að baki og var markakóngur N1-deildar karla á síðustu leiktíð, er hann skoraði 141 mark í 21 leik með HK-ingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×