Lífið

Athyglinni beint að utangarðsmönnum

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Ólafur J. Engilbertsson sýningarstjóri, ásamt Sigríði Hjördísi Jörundsdóttur og Halldóru Kristinsdóttur, sem semja texta sýningarinnar.
Ólafur J. Engilbertsson sýningarstjóri, ásamt Sigríði Hjördísi Jörundsdóttur og Halldóru Kristinsdóttur, sem semja texta sýningarinnar. fréttablaðið/Anton

Sýningin Utangarðs? verður opnuð í Þjóðarbókhlöðunni í dag í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík.

Á henni verður brugðið ljósi á það hvernig var að vera niðursetningur, fatlaður, geðveikur, glæpamaður, drykkjumaður eða listamaður á seinni hluta átjándu aldar og fram á 20. öld.

Ólafur J. Engilbertsson er sýningarstjóri en Sigríður Hjördís Jörundsdóttir og Halldóra Kristinsdóttir eru höfundar texta. „Hugmyndin kom upphaflega frá Sigríði Hjördísi, sem hafði rannsakað skjöl um glæpamenn á 19. öld,“ segir Ólafur.

„Hún einbeitti sér í fyrstu að Svani Jónssyni, ungum manni með listræna hæfileika sem ólst upp við slæm skilyrði og lenti upp á kant við samfélagið. Svanur var dæmdur fyrir smáglæpi, þjófnaði á harðfiski og öðru smálegu, og endaði ævi sína í betrunarhúsi í Kaupmannahöfn.“

Saga Svans varð þannig kveikjan að sýningunni og til er mikið af efni um fólk sem var utanveltu og utangarðs í handritadeild Landsbókasafnsins.

„Sumir eru auðvitað þekktir, eins og Sölvi Helgason, en við vildum draga fram sögur af öðru fólki sem lítið hefur verið fjallað um fram að þessu. Margir voru listamenn; skáld, tónlistarmenn og leikarar og nokkrir voru vatnsberar – á meðan sú starfsgrein var enn við lýði. Enn aðrir höfðu tekjur af einhverri sérgáfu líkt, eins og Gvendur dúllari sem „dúllaði“ eða sönglaði, og aðrir voru með leikrænar uppákomur.“

Einnig verður fjallað um sérkenni utangarðsfólks og hvaða atvinnu það stundaði helst. „Örar þjóðfélagsbreytingar fólu í sér breytta stöðu þeirra sem lentu utangarðs við kjarnafjölskylduna og samfélagið eða nutu ekki þeirrar aðhlynningar sem völ er á í dag,“ segir Ólafur.

2

„Lög og reglugerðir um flakk og ómagaframfærslu breyttust, vistarbandið var afnumið og ýmis störf lögðust af. Sæmundur með sextán skó var til dæmis vatnsberi en það starf lagðist af í kringum aldamótin 1900. Með því að segja sögu þessara einstaklinga viljum við bregða ljósi á samfélagsgerðina og hvernig hún var að breytast. Á tímabili fór ómögum fjölgandi en svo fækkaði þeim aftur.“ 

Ólafur segir að það hafi verið snúið að miðla efninu í sýningu. „Að hluta til er þetta „ósýnilegt“ málefni. Við reynum að draga fram þær heimildir sem til eru um þetta fólk á handritadeildinni. Við fengum líka Halldór Baldursson til að teikna myndir af mörgum af þeim einstaklingum sem eru til umfjöllunar og það glæðir hana lífi, auk þess sem til eru ljósmyndir af sumum þessara einstaklinga.“ 

Sýningin Utangarðs stendur til 30. september.

3





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.