Skoðun

Ákall til innanríkisráðherra

Helga Tryggvadóttir skrifar
Í liðinni viku vakti mál samkynhneigðs hælisleitanda frá Nígeríu athygli og hneykslan margra, en umsókn hans um hæli hér á landi hefur verði synjað án þess að hafa verið tekin til efnislegrar meðferðar hér og Útlendingastofnun hyggst senda viðkomandi aftur til Ítalíu þaðan sem hann kom hingað til lands. Á Ítalíu hefur umsókn hans um stöðu flóttamanns velkst um í kerfinu í níu ár. Í þessi níu ár hefur maðurinn neyðst til að búa á götunni og reynt að sjá sér farborða án þess að eiga heimili, möguleika á atvinnu eða aðstoð frá stjórnvöldum. Vegna staðsetningar Ítalíu er mikill fjöldi flóttamanna sem þangað leitar en ár hvert tekur Ítalía við 50 þúsund hælisumsóknum. Hvort sem flóttafólki er veitt réttarstaða flóttamanns eða ekki, blasir við því ömurlegt ástand. Fyrir flóttamenn eru atvinnuhorfur nánast engar, þeir lenda á jaðri samfélagsins og verða í æ meira mæli fyrir ofbeldi og árásum af hálfu rasista.

Flestir eiga ekki í nein hús að venda og hírast ýmist á götunni eða í yfirgefnum byggingum líkt og einni í Rómarborg þar sem 250 manns deildu einu salerni og sturtu. Í slíkum aðstæðum er heilsu þeirra stefnt í hættu en eina heilsugæslan sem þeim býðst er hópur sjálfboðaliða sem kemur þangað af og til. Þrátt fyrir slæman aðbúnað flóttamanna á Ítalíu er það þó himnaríki miðað við aðstæður í nágrannaríkinu, Grikklandi. Þar, segja hælisleitendur sem flúið hafa vopnuð átök í Sýrlandi og Afganistan, er ástandið verra en í heimalandinu og hjálparsamtök segja að þar ríki algjört neyðarástand í málefnum hælisleitenda. Málsmeðferðarhraði í Aþenu er svo hægur að eingöngu eru teknar fyrir 20 hælisumsóknir á viku, þrátt fyrir að þúsundir manna hafi sótt um hæli. Þeir sem fá mál sín ekki tekin fyrir eru stimplaðir sem „ólöglegir innflytjendur“ og hafa yfirvöld gefið óformlegt veiðileyfi á þetta fólk. Nýnasistar ráðast á það með ofbeldi á meðan lögreglan læsir flóttamennina inni í fangabúðum þar sem þeir dúsa um óákveðinn langan tíma án þess að hafa nokkuð til saka unnið. Þar fá þeir lítinn mat, engin föt, sápu eða rúmfatnað. Það virðist litlu máli skipta um hvern ræðir, því þungaðar konur og börn eru einnig vistuð í þessum fangelsum. Margir flóttamenn verða fyrir ofbeldi af hálfu lögreglunnar enda er gríska lögreglan nátengd fasískum samtökum sem kenna innflytjendum um allt það sem farið hefur úrskeiðis í grísku samfélagi en þar er ástandið - eins og flestir vita - hörmulegt.

Þó Ísland hafi um skeið ekki sent flóttamenn til Grikklands á grundvelli Dyflinnarsáttmálans, hikar Útlendingastofnun ekki við að senda fólk aftur til Ítalíu, Spánar, eða annarra landa í Suður-Evrópu þar sem efnahagserfiðleikar og atvinnuleysi er mun verra en hér, og þar sem fjöldi hælisleitenda er slíkur að öll kerfi eru löngu sprungin, aðstoð þeim til handa er af skornum skammti og rasismi er að aukast. Af þeim 55 umsóknum sem Útlendingastofnun afgreiddi á síðasta ári voru 39 manns sendir til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Dyflinnarreglan er samkomulag milli Evrópuríkja og felur í sér að það land sem hælisleitandi kemur fyrst til, ber ábyrgð á að umókn hans hljóti afgreiðslu. Þessari reglu er fyrst og fremst ætlað að tryggja að umsókn hælisleitenda sé ekki tekin fyrir í mörgum löndum samtímis. Undanfarið hefur Dyflinnarreglan hlotið gagnrýni þar sem sum lönd eru farin að skýla sér bak við hana, á meðan hún veldur óþarflega miklu álagi í öðrum löndum, svo sem Ítalíu, Grikklandi og Spáni. Íslandi ber engin skylda til þess að nýta sér ákvæði Dyflinnarreglunnar en gerir það engu að síður í miklum mæli eins og tölurnar sýna. Varla er hægt að skýra þá afstöðu Útlendingastofnunnar með því að hingað berist svo mikill fjöldi umsókna um hæli, þar sem þær eru hlutfallslega mun færri hér á landi heldur en annars staðar á Norðurlöndunum.

Ef Ísland tæki við hlutfallslega jafn mörgum hælisumsóknum eins og Svíþjóð væru þær 996 talsins en voru 116 hér á landi í fyrra, þar af voru 55 umsóknir teknar til athugunar. Ekki getum við heldur skýlt okkur á bak við slæmt efnahagsástand, þar sem það er miklu verra í löndunum sem við sendum flóttamennina aftur til. En hver er skýringin á hinu skammarlega ástandi sem málaflokkurinn flóttamannamál eru á Íslandi – landi sem telur sig velferðarríki og státar sig af mannréttindum á tyllidögum? Af hverju eru nánast allir sem hingað leita sendir til baka í hörmulegar aðstæður? Hver er ástæðan fyrir hinni óhóflegu notkun Dyflinnarreglunnar? Útlendingastofnun ber fyrir sig skorti á fjármagni en í ljósi endurtekinna ummæla forstjóra stofnunarinnar, sem lýsa miklum fordómum gagnvart hælisleitendum og útlendingum almennt, má leiða að því líkur að vandamálið sé fremur skortur á vilja en getu. Er ekki kominn tími til að innanríkisráðuneytið grípi í taumana og reyni að standa undir nafni sem „mannréttindaráðuneyti“?




Skoðun

Sjá meira


×