Innlent

Börn lenda oftar í alvarlegum slysum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Herdís L. Storgaard
Herdís L. Storgaard
„Alvarlegum slysum á leiksvæðum hefur fjölgað mjög á undanförnum þremur árum á tímum sparnaðar, einkum á leikskólalóðum. Sem betur fer hafa ekki orðið höfuðáverkar en dæmi eru um að börn hafi lærbrotnað á leikskólalóð. Milta sprakk í dreng við fall úr leiktæki á grunnskólalóð. Undirlagið var ekki rétt og alltof þunnt. Börn hafa líka lærbrotnað.“ Þetta segir Herdís L. Storgaard, starfsmaður landlæknisembættisins, en Herdís hefur um árabil barist fyrir bættu öryggi á leiksvæðum.

Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar var í fyrra gerð reglubundin árleg aðalskoðun af faggiltum aðila á aðeins 10 prósentum leiksvæða allra leik- og grunnskóla landsins. Framkvæma á yfirlitsskoðun daglega þar sem hættur eru fjarlægðar. Rekstrarskoðun á að framkvæma fjórum sinnum ári af viðhaldsdeild ábyrgðaraðila.

Mörgum rekstraraðilum þykir yfirlitsskoðun og rekstrarskoðun nægja, að því er Katrín Hilmarsdóttir, sérfræðingur Umhverfisstofnunar, greindi frá í Fréttablaðinu í síðustu viku.

Herdísi finnst að rýmka megi reglurnar um skoðun leiksvæða. „Mér finnst í lagi að framkvæma aðalskoðun sjaldnar en einu sinni á ári þegar menn hafa sýnt fram á að allt sé komið í lag. Ákvæðið um aðalskoðun var sett í reglugerðina um leiktæki og leiksvæði vegna þess að menn létu ekki framkvæma rekstrarskoðun. Mönnum hafa þótt kröfurnar íþyngjandi en sveitarfélögin verða að átta sig á að þau borga ekki kostnaðinn vegna slysa. Hann er greiddur úr sameiginlegum sjóðum.“

Þörf er á samræmdri rekstrarskoðun leiksvæða, að mati Herdísar. „Það er mjög misjafnt eftir sveitarfélögum hversu vel rekstrarskoðun er framkvæmd. Það þyrfti að útbúa gátlista þannig að þetta yrði sambærilegt um allt land. Ef rekstrarskoðun er framkvæmd á réttan hátt er í raun óþarfi að framkvæma hana fjórum sinnum á ári á milli aðalskoðana.“

Herdís kveðst hafa fengið þau svör hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að endurskoða eigi reglugerðina um öryggi leiksvæða um leið og gefin hafi verið út öryggishandbók fyrir sundstaði í haust. „Þá þarf einnig að taka tillit til þeirra nýjunga sem hafa orðið. Það eru komin mörg innanhússleiksvæði sem engin reglugerð nær til. Það hafa orðið slys á þessum stöðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×