Skoðun

Skógræktaröfgar í Elliðaárdal

Björn Guðmundsson skrifar
Í fornum ritum kemur fram að þegar landnámsmenn komu til Íslands var landið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Skógurinn lét þó fljótt á sjá vegna þarfa frumbyggjanna fyrir byggingarefni og eldivið. Kólnandi veðurfar, skógarhögg og ofbeit leiddi síðar til uppblásturs gróins lands.

Á síðustu öld varð hér vitundarvakning til endurheimtar landgæða eins og það er stundum kallað. Menn sáðu grasfræi í örfoka land og hófu að gróðursetja tré. Mörg þessara verka áttu fullan rétt á sér en sums staðar hafa menn farið offari og eru enn á þeim buxunum.

Fyrir allmörgum áratugum var hafin skógrækt í neðanverðum Elliðaárdal en ofar í dalnum fékk fallegt íslenskt mólendi að njóta sín á yfirborði Leitahraunsins. En nú er svo komið að skógræktaræðið er að kaffæra efri hluta dalsins, einkum þó sunnan árinnar. Hugsunin virðist vera svo barnaleg að skógrækt sé góð hvar sem er. Trjánum er jafnvel plantað beint á stíga sem veiðimenn ganga meðfram ánni, t.d. sunnan árinnar vestan Heyvaðs. Enn fær þó mólendið að njóta sín milli athafnasvæðis Fáks og Elliðaánna. Vonandi verður svo áfram.

Vistkerfið breytist

Með skógrækt breytist vistkerfi dalsins mjög mikið. Mólendisfuglar eins og heiðlóa og spói hrekjast burt þegar land verður trjávaxið en Íslendingar bera mikla ábyrgð á þessum fuglastofnum þar eð 50% heiðlóustofnsins og 40% spóastofnsins verpa hér á landi. Sumir eru þeirra skoðunar að láta hefði átt náttúrulega gróðurframvindu eiga sér stað í efri hluta Elliðaárdals. Slíkt er t.d. áskilið í skipulagsskilmálum varðandi hverfisfriðland Bugðu í Norðlingaholti en engu að síður eru sumir svo illa smitaðir af gróðursetningaræðinu að fram hafa komið tillögur um gróðursetningu trjáa þarna í trássi við skipulagsskilmála hverfisins.

Íbúum við Rituhóla er misboðið að hömlulaus skógrækt hafi skert það fagra útsýni sem þeir höfðu en lóðirnar voru einmitt seldar sem útsýnislóðir. Þeir hafa gripið til sinna ráða til að endurheimta útsýnið. Það sýnir að skógræktin þarna hefur farið út í öfgar. Efst í brekkunni næst húsunum hefði átt að planta lágvöxnum trjám. Þeir sem stjórnuðu þessari skógrækt hefðu átt að vita að það vandamál kæmi upp sem nú er orðið.

Margir, þ.á.m. undirritaður, nýta skóglendi í Heiðmörk til útvistar allan ársins hring og sumir nýta skóginn í neðri hluta Elliðaárdalsins til hins sama. Því ekki að leyfa efri hluta Elliðaárdals að vera í friði fyrir skógrækt. Er ekki gott að hafa fjölbreytni, skóg sums staðar og mólendi annars staðar? Íslenskt mólendi með öllu sínu víðsýni og fuglalífi er fallegt vistkerfi. Leyfum því að njóta sín.




Skoðun

Sjá meira


×