Skoðun

Flippað fjarnám?

Sölvi Sveinsson skrifar
Svo lengi lærir sem lifir: nú er það spegluð kennsla sem bættist í hugtakasafnið, flipped classroom upp á ensku, eftir lestur greinar Hjálmars Árnasonar í Fréttablaðinu 3. apríl sl. En ekkert er nýtt undir sólinni. Ég fæ ekki betur séð en röksemdir hans með þessu vinnuferli eigi prýðilega við það fjarnám sem ég þekki best, í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og í Verzlunarskólanum. „Þitt nám þegar þér hentar“ var auglýst og „þitt nám á þínum hraða“.

Góðir fjarkennarar eiga frábært námsumhverfi á neti og nota margvíslega gagnvirka miðla til þess að hafa samband við fjarnemendur. Þeir fjalla um efnið frá ýmsum sjónarhornum, svara ótal spurningum og safna í sarpinn. Fjarnemendur geta t.d. horft og hlustað á kennara sinn reikna sama dæmið eins oft og þeir þurfa til þess að skilja og ef það dugir ekki senda þeir fyrirspurn og fá svar. Stundum eru staðbundnar lotur þar sem nemendur geta farið í saumana á einstökum úrlausnarefnum með kennara sínum. Því er enn við að bæta, að flestir fjarnámskennarar kenna námsefni sitt líka í kennslustofu og opna þá fjarnámsumhverfi sitt fyrir dagskólanemendum sem þannig geta nálgast efnið heiman frá sér – í fylgd með foreldrum ef þeir hafa áhuga. Allt eykur þetta virkni nemenda, færri falla fyrir vikið, og fleiri geta stundað nám. Það voru hrapalleg mistök að skerða fjarnám um helming í kjölfar hruns.

Brottfallsumræða er allt önnur Ella. Brottfall stafar hér einkum af því að námsframboð framhaldsskóla er allt of bókmiðað og dulda námskráin stýrir alltof mörgum í bóknám sem þangað eiga ekki erindi. Stjórnmálamenn staglast á því að efla þurfi starfs- og verknám, en ekkert gerist þótt þeir setjist í valdastóla. Nýir skólar í Mosfellsbæ, Borgarnesi, Grundarfirði og í Fjallabyggð eru allir bóknámsmiðaðir. Ekki var pólitískur vilji til þess að stofna Listmenntaskóla Íslands sem bráðvantar til þess að bæta úr brýnni þörf – t.d. ef menn vilja minnka brottfall og efla verknám.




Skoðun

Sjá meira


×