Skoðun

Ótrúverðug loforð menntamálaráðherra

Ólafur Haukur Johnson skrifar
Ótrúleg grein birtist í Fréttablaðinu 17. apríl eftir Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og formann VG, undir fyrirsögninni: „Vinstri – græn setja framtíð skólastarfs á oddinn.“

Þetta er ótrúverðug yfirlýsing eftir starf hennar á liðnu kjörtímabili. Vissulega er það rétt að eitt það mikilvægasta sem kosið er um er framtíð skólastarfs í landinu. Það er hins vegar ótrúverðugt að eftir fjögur ár glataðra tækifæra, niðurrifs og stöðnunar hafi nú formaður VG loks áhuga á menntamálum og lofi að gera eitthvað á „næsta kjörtímabili“ er til framfara horfir. Lýsir það vanvirðingu við landsmenn og skólamenn.

Loforð Katrínar nú hlýtur að kalla fram spurningu um af hverju hún hefur enga tilraun gert til að verja framhaldsskólana þessi ár og af hverju engin uppbygging hefur orðið? Tækifærin hafa verið víða og flestir skólamenn tilbúnir að gera mikið í málinu en ekkert frumkvæði hefur komið frá ráðherra. Því verður kjörtímabilsins minnst sem ára hinna glötuðu tækifæra í málum framhaldsskóla. Auðvitað hefur fjárhagsstaða ríkisins til að gera eitthvað fyrir skólana oft verið betri en hún var þetta kjörtímabil. Það þýðir þó ekki að stöðnun og aðgerðaleysi hafi átt að ráða för. Þvert á móti. Tækifæri til að taka á ýmsum vanda voru mörg. Halda vafalítið sumir að ég líti hér aðeins til framkomu hennar gagnvart Menntaskólanum Hraðbraut sem vissulega var afdrifarík og vond fyrir alla landsmenn. Svo er ekki. Ég er að horfa á framkomu hennar gagnvart starfi í framhaldsskólunum öllum. Nefni ég tvö dæmi:

Kjör dregist aftur úr

1. Betur hefði átt að verja kjör framhaldsskólamanna. Kjörin hafa dregist hratt aftur úr kjörum viðmiðunarstétta, fyrst og fremst vegna algers áhugaleysis ráðherra. Taka hefði átt á samningum ríkisins við Kennarasamband Íslands. Þeir samningar eru fyrir löngu úreltir og eru dragbítur á starf skólanna. Raunar eru þeir ein helsta ástæða þess að kjör kennara hafa versnað og munu að óbreyttu halda áfram að versna. Fullyrði ég að ef ráðherra hefði tekið á því máli hefði mátt með tiltölulega lítilli hugmyndaauðgi bæta kjör um allt að 20% án aukakostnaðar fyrir ríkið. Ekki hefði þurft annað en að láta kennara og skólastjórnendur sjálfa leiða breytingar á skólastarfinu þá hefðu þær örugglega tekist með ágætum.

2. Ekki aðeins hafa tækifæri til framfara liðið hjá án þess að hafa verið nýtt heldur hefur niðurrif verið stundað. Það að slá á frest að koma í gagnið nýrri almennri námskrá fyrir framhaldsskólana eins og búið var að samþykkja lýsir áhugaleysi, úrræðaleysi og getuleysi. Alls engin ástæða var til að fresta því máli enda hefur sú ákvörðun ekki verið studd haldbærum rökum. Tækifærið var einstakt enda er algerlega nauðsynlegt að gera lengd náms í íslenskum skólum hliðstæða öðrum löndum. Það bruðl sem felst í því að gera það ekki er með öllu óásættanlegt fyrir íslensk ungmenni og reyndar þjóðina alla.

Fleiri mál má nefna sem hefðu getað leitt framfarir í starfi framhaldsskólanna á þessu kjörtímabili en ég læt hér staðar numið í bili.




Skoðun

Sjá meira


×