Skoðun

Upplýsing gegn þrugli

Guttormur Helgi Jóhannesson skrifar
Þetta sírennsli þruglsins; öfgaöflum hérlendis hefur tekist að afvegaleiða ESB-umræðuna, slá ryki í augu almennings. Formaður Sjálfstæðisflokksins hótaði að slíta samningaviðræðunum við ESB daginn eftir að hann kæmist til valda og ónýta þannig þá góðu og miklu vinnu sem lögð hefur verið í þær – undir forystu eldklárs samningamanns með áralanga reynslu á alþjóðavettvangi. En furðulegasta afurð þessara afturhaldsafla er hugmyndin um „tvöfalda“ atkvæðagreiðslu – sú fyrri á víst að snúast um ekki neitt, autt skjal, samning sem liggur ekki fyrir í endanlegri mynd. Engin Evrópuþjóð hefur til þessa dags gengið til slíkrar atkvæðagreiðslu. Hver hefur ekki fengið nóg af þessu þrugli.



Vart þarf að minna fólk á að ESB var upphaflega stofnað í því skyni að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu í kjölfar seinna stríðs en hugsunin var líka sú að í krafti samvinnu Evrópuþjóða á ótal sviðum („sameinaðar í fjölbreytni sinni“) mætti skapa efnahagsveldi sem bætt gæti lífskjör íbúa þess – og orðið mótvægi við Bandaríkin og rísandi veldi í austri. Það gekk eftir. Þetta yfirþjóðlega bandalag er einsdæmi í heiminum, með menningarvíddir til allra átta: 27 fullvalda ríki með ríflega 503 milljónir íbúa, 23 opinber tungumál, öflugasta hagkerfi heims með ársframleiðslu upp á meira en 12.268 milljarða € – og búa þó ekki nema 7% mannkyns í löndum ESB. Staðbundnar krísur síðustu ára breyta ekki þessum staðreyndum. Raunar er talið að um 40% allra auðæva heims séu þar samankomin.



Er það sannfæring mín að eyþjóð í norðurhafi eigi samleið með þessu magnaða meginlandi Evrópu og muni vegna vel í því samfélagi þjóða – hún þarf svo sannarlega á efnahagslegu skjóli að halda. Með því að verða hluti af stórri heild tel ég framtíð hennar best borgið. Gleymum því ei að á meðal stofnríkja Kola- og stálbandalags Evrópu, fyrirrennara ESB sem sett var á laggirnar 1952, var smáríki á borð við Lúxembúrg (með svipaðan íbúafjölda og Ísland) sem býr við fádæma velmegun í dag og hefur á að skipa háþróuðu samgöngukerfi, svo fátt eitt sé nefnt. Sagan sýnir að smáríki hafa notið feikilegs ávinnings af aðild sinni að ESB. Í ljósi þessa var það rétt ákvörðun að hefja aðildarviðræður við ESB og brýnt að næsta ríkisstjórn haldi stefnu í þeim efnum. Það gerist ekki nema Samfylkingin fái þann þingmannastyrk sem þarf til að leiða þær til lykta – þess vegna fær hún atkvæði mitt.



En alþingiskosningarnar 2013, eins og þær hafa þróast, snúast fyrst og fremst um lífskjör almennings sem nátengd eru baráttu tveggja andstæðra afla: Almannahags gegn sérhagsmunum. Hvort þeirra sigrar skýrist 27. apríl. Okkar er valið og ábyrgðin okkar. Ekki aftur Sjálfstæðisflokk og Framsókn við stjórnvölinn! Íslensku bankarnir eftir einkavæðingu og fram að hruni voru sagan um ekki neitt – engin framþróun, bara afturför. Stjórn fyrrnefndra flokka yrði ávísun á það sama, eina ferðina enn. Zzzzzzzz...




Skoðun

Sjá meira


×