Skoðun

Reikningskúnstir ráðuneytis

Guðjón Ragnar Jónasson skrifar
Í kjölfar kreppunnar þurftu íslenskir framhaldsskólar að draga mjög úr útgjöldum. Nú er svo komið að algengt er að námshópar telji um og yfir þrjátíu nemendur. Erfitt er um vik með alla skólaþróun og alkunna að stórir námshópar eru ávísun á aukið brottfall.

Ef rýnt er í fjárframlög til framhaldsskóla sést að niðurskurðurinn hófst fyrir kreppu. Menntamálaráðuneytið hefur nefnilega leikið ljótan leik síðustu ár. Svokölluð launastika ræður mestu um fjárframlög til framhaldsskólans. Hún hefur ekki fylgt kjarasamningum og orsakar gat sem fyllt er upp í með því að skerða þjónustu.

Þegar launastikan var skilgreind (2003) var hún launaviðmið fyrir mánaðarlaun framhaldsskólakennara, þ.e.a.s. grunnlaun án stjórnunar, sérverkefna, aldursafsláttar eða umbunar af öðru tagi. Sama tala var notuð fyrir alla framhaldsskóla frá og með þessum tíma, en áður hafði verið miðað við meðallaun hvers skóla fyrir sig. Hér má sjá þróun launastikunnar á árunum 2003–2012.

Markmiðið um samsvörun milli launastiku og meðallauna stóðst í skamman tíma og nú munar fjórðungi. Gatið hefur m.a. verið brúað með risastórum námshópum. Búið er að tálga framhaldsskólann inn að beini og ekki mögulegt að skera meira. Höfum hugfast að yfir 80% af útgjöldum framhaldsskólans fer í launagreiðslur.

Menntamálaráðherra hefur sýnt að hún er velviljuð menntun og ég trúi ekki öðru en að hún leiðrétti misfærslurnar. Það eru forkastanleg vinnubrögð þegar reiknilíkön fylgja ekki lögbundnum kjarasamningum. Hugboðið segir að hér hafi ráðuneytið vísvitandi falið niðurskurðinn. Skólafólk sér í gegnum svona reikningskúnstir og það mun ekki líða risastóra námshópa sem rýra gæði skólastarfsins.




Skoðun

Sjá meira


×