Skoðun

Fjölbreyttur stuðningur

Oddný Sturludóttir skrifar
Það er kærkomið að fá tækifæri til að ræða um stefnu um skóla án aðgreiningar, markmið hennar og leiðir til að ná þeim. Mikilvægt er að árétta að sérskólar og sérdeildir eru hluti af stefnu um skóla án aðgreiningar, stefnan miðar ekki að því að loka sérskólum eða sérdeildum. Góðir sérskólar og sérdeildir eru ómissandi fyrir skóla án aðgreiningar.

Markmiðið er að styrkja sérskólana og einnig nýta þeirra styrk í skólakerfinu. Stærsta einstaka framkvæmdin í endurbótum og uppbyggingu í borginni tengist okkar góða sérskóla, Klettaskóla. Þar verjum við tveimur milljörðum króna til endurbóta og stækkunar, m.a. verður byggt nýtt íþróttahús og sundlaug. Haustið 2011 var opnuð ný sérdeild í Vogaskóla fyrir einhverfa nemendur, sú fjórða í röðinni. 

Endurskoðuð stefna

Nýverið samþykkti borgarstjórn endurskoðaða stefnu um skóla án aðgreiningar. Hún var fyrst samþykkt árið 2002 og fékk stoð í grunnskólalögum árið 2008 þar sem m.a. er kveðið á um rétt barna til náms í skóla án aðgreiningar og skyldur sveitarfélaga, t.d. um innritun og útskrift nemenda úr sérskólum, byggt á mati fagráðs.

Margir hagsmunaaðilar fengu stefnuna til umsagnar og var mikill meirihluti ánægður með stefnuna, ekki alla þætti hennar en aldrei verða allir fullkomlega sammála. Skólayfirvöld reyna hins vegar að gera betur á hverjum degi.

Eitt af því sem stefnan kveður á um er fjölgun svokallaðra þátttökubekkja. Strax næsta haust fara tveir slíkir af stað, einn fyrir þroskahamlaða nemendur og hinn tengist Brúarskóla. Stefnan er að fjölga þátttökubekkjum smátt og smátt. Þátttökubekkur gengur út á að sérfræðikunnátta Klettaskóla og Brúarskóla verði til staðar fyrir fleiri börn, sem næst þeirra heimilum. Jákvæð reynsla er af þeim þátttökubekk sem þegar hefur tekið til starfa fyrir skólastarf í borginni. Þessi þróun gefur okkur tækifæri til að breiða út þekkingu þess fagfólks sem þekkir best til þarfa barna með fatlanir, það er mikilvægt fyrir skólastarfið allt.

Á síðustu misserum hefur borgarstjórn Reykjavíkur sammælst um fjölmargt annað sem styður við nemendur. Betri stuðningur er nú við börn í Fellaskóla sem hafa annað móðurmál en íslensku og í innleiðingu er nýtt málkönnunartæki sem metur betur þarfir barna af erlendum uppruna.

Meira fjármagn hefur farið til frístundaklúbba fyrir fötluð börn og Tónstofa Valgerðar, sem er tónlistarskóli fyrir fötluð börn, hefur fengið meiri stuðning. Aukin ráðgjöf til leikskóla með breyttu verklagi hefur gefið góða raun og í bígerð er að þróa samþætt skóla- og frístundastarf fyrir yngri barnahópinn í Brúarskóla.

Nú þegar landið er að rísa í fjárhag borgarinnar höfum við einsett okkur að styðja betur við skólastarf án aðgreiningar og fjárhagsáætlun þessa árs ber þess strax merki. Skólayfirvöld í Reykjavík hafa mikinn metnað til að þróa í sífellu betri og fjölbreyttari lausnir og leiðir til að mæta þörfum barna í skóla- og frístundastarfi.




Skoðun

Sjá meira


×