Skoðun

Vanræksla er ekki ofbeldi

Freydís Jóna Freysteinsdóttir skrifar
Að undanförnu hefur verið nokkuð um greinaskrif í fjölmiðlum um ofbeldi og vanrækslu. Því hefur verið haldið fram ítrekað að vanræksla sé ein tegund ofbeldis. Þetta er ekki rétt. Ofbeldi og vanræksla barna er hvort tveggja misbrestur á aðbúnaði barna. Hins vegar er grundvallarmunur á ofbeldi annars vegar og vanrækslu hins vegar. Í ofbeldi felst athöfn en í vanrækslu felst skortur á athöfn.

Ofbeldi gagnvart börnum

Ofbeldi er (óþörf) athöfn sem veldur barni skaða eða er líkleg til að valda barni skaða. Til eru þrjár gerðir ofbeldis, tilfinningalegt ofbeldi (stundum kallað andlegt ofbeldi eða sálrænt ofbeldi), líkamlegt ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi. Í tilfinningalegu ofbeldi getur falist að gera lítið úr barni. Þegar barn verður vitni að ofbeldi milli foreldra flokkast það undir tilfinningalegt ofbeldi. Dæmi um líkamlegt ofbeldi er að slá barn með flötum lófa. Dæmi um kynferðislegt ofbeldi er að káfa á kynferðislegum svæðum á barni eða að senda barni klúr sms-skilaboð.

Vanræksla barna

Vanræksla er skortur á (nauðsynlegri) athöfn sem veldur barni skaða eða er líkleg til að valda barni skaða. Vanrækslu hefur verið skipt upp í fjóra megin flokka, líkamlega vanrækslu, vanrækslu í umsjón og eftirliti, vanrækslu varðandi nám og tilfinningalega vanrækslu. Líkamleg vanræksla eða vanræksla á grunnþörfum felur í sér að fæði, klæðnaði, hreinlæti, húsnæði eða heilbrigðisþjónustu barns er ábótavant. Vanræksla í umsjón og eftirliti getur falið í sér að barni er hætta búin þar sem það hefur ekki þroska og getu til að hugsa um sig sjálft. Ýmsar undirgerðir eru til af vanrækslu í umsjón og eftirliti, t.d. geta börn verið skilin eftir ein heima eða óhæfur umönnunaraðili getur verið fenginn til að gæta þeirra. Vanræksla varðandi nám getur falið í sér að barn mæti ekki nægilega vel í skóla eða sinni ekki heimalærdómi af því það fær ekki viðunandi stuðning og aðhald foreldra til þess. Tilfinningaleg vanræksla getur falist í að ungt barn sem grætur fær ekki þá umhyggju sem það þarf á að halda.

Afleiðingar ofbeldis og vanrækslu

Það er mikilvægt að hafa í huga að vanræksla er ekki síður skaðleg en ofbeldi. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem verða fyrir ofbeldi eða vanrækslu eða hvoru tveggja eru líkleg til að þurfa að kljást við ýmsar afleiðingar af því sem geta verið líkamlegar, hugrænar, félagslegar og tilfinningalegar. Dæmi um líkamlegar afleiðingar getur verið höfuðverkur eða magaverkur (sállíkamleg einkenni). Börnum sem verða fyrir ofbeldi hættir til að dragast aftur úr í skóla og að eiga erfitt með að einbeita sér og vanrækt börn fá ekki nægilega hugræna örvun og geta þess vegna dregist aftur úr í þroska miðað við jafnaldra sína. Dæmi um félagslegar afleiðingar er t.d. skortur á félagslegri færni og dæmi um tilfinningalegar afleiðingar er áfallastreituröskun sem er sérstaklega hætt við eftir að barn hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Kvíði og þunglyndi eru einnig dæmi um tilfinningalegar afleiðingar ofbeldis og vanrækslu.

Í þessu stutta greinarkorni koma fram helstu tegundir ofbeldis og vanrækslu barna en einungis eru nefnd örfá dæmi. Þar sem afleiðingar ofbeldis og vanrækslu barna geta verið alvarlegar, er brýnt að tilkynna grun um slíkt til barnaverndaryfirvalda eða í Neyðarsíma 112.




Skoðun

Sjá meira


×