Skoðun

Sinnuleysi Háskólans

Sara Sigurbjörns-Öldudóttir skrifar
Það er kunnara en frá þurfi að segja að stór hluti af kennslu við háskólana á Íslandi er í höndum stundakennara. Án þessa hóps væri rekstur skólanna í núverandi mynd útilokaður. Ein ástæða þessa eru þau löku kjör sem hópnum eru búin. Tímakaup stundakennara með MA- eða MS-gráðu er t.a.m. 1.794 krónur. Sú upphæð hækkar um rúmar 170 krónur fyrir doktorsgráðu. Auk hinna lágu launa er réttleysi stundakennara nánast algjört og vinnuaðstæður bágbornar.

Í áraraðir hefur verið rætt um mikilvægi þess að bæta kjör þessa starfshóps, en lítið orðið úr efndum. Frá efnahagshruni hafa fjárhagsvandræði Háskólans svo verið stjórnendum hans afsökun fyrir að gera ekkert í málinu.

Ósk um samráðsnefnd

Í júní á síðasta ári sendi Hagstund, hagsmunafélag stundakennara á háskólastigi, ásamt BHM og Félagi háskólakennara erindi til Háskóla Íslands með ósk um að stofnuð yrði samráðsnefnd með fulltrúum samtakanna, skólans, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Tilgangur nefndarinnar yrði að leita leiða til að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu sem Háskóli Íslands hefur sjálfur markað sér, en þar segir: „Gert verði átak í að bæta kjör og aðstöðu stundakennara og styrkja stöðu þeirra innan Háskóla Íslands. Mörkuð verði stefna um æskilegt hlutfall stundakennslu af heildarkennslumagni, ráðningarferli stundakennara, hæfnikröfur, þjálfun og upplýsingamiðlun til þeirra."

Því miður virðast þessi háleitu markmið úr stefnu skólans fyrir árin 2011-2016 vera lítið annað en orðin tóm. Háskólinn hefur í engu svarað erindinu og ekkert bendir til að von sé á úrbótum. Svo virðist sem stjórnendur HÍ telji að stundakennarar muni hér eftir sem hingað til láta bjóða sér hvað sem er í kjara- og aðstöðumálum án þess að það bitni á gæðum kennslunnar. Það er háskalegur leikur.




Skoðun

Sjá meira


×