Skoðun

Raunsæi Árna Páls

Margrét S. Björnsdóttir skrifar
Formaður Samfylkingarinnar – Jafnaðarmannaflokks Íslands sætir árásum frá fólki sem segir hann hafa eyðilagt stjórnarskrármálið. Komið í veg fyrir að ný heildstæð stjórnarskrá verði samþykkt fyrir kosningar. Það er mikill misskilningur. Það er ekki á valdi Árna Páls. Stjórnarandstöðunni er í lófa lagið að drepa málið með málþófi þessa sjö þingfundadaga sem eftir eru og jafnvel þótt þingið yrði framlengt. Að ekki sé minnst á þá staðreynd að margir tugir mála frá ríkisstjórninni bíða afgreiðslu inni í þinginu. Málið er því miður fallið á tíma, þrátt fyrir besta ásetning þeirra sem fara fyrir því á Alþingi, einlægan vilja og harðfylgni þeirra Valgerðar Bjarnadóttur, Álfheiðar Ingadóttur og Lúðvíks Geirssonar, sem ber að þakka.

Árni Páll er að höggva á hnút sem mér var löngu ljóst að yrði að gera.

Meiri umræðu þörf

Auk þess má benda á, að tillögur Stjórnlagaráðs, nú stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sem eru um margt merkilegar og framfarasinnaðar, þarf einfaldlega að ræða betur. Hugsa þær til enda með okkar færasta fólki og ná sem víðtækastri sátt. Mikið er af nýmælum, jafnvel án fordæma sem eðlilegt er að lengri og almennari umræða verði um. Fyrir þessu talaði ég ítrekað í stjórn og þingflokki Samfylkingarinnar og hvatti til þess sama og Árni Páll leggur nú til.

Stjórnarskráin er ekki eins og hvert annað ríkisstjórnarmeirihlutamál. Stjórnarskráin er sáttmáli sem við sem þjóð gerum hvert við annað. Þann sáttmála á ekki að keyra í gegnum Alþingi með tæpasta meirihluta og án góðs tíma til umræðu og umhugsunar.

Það þarf hugrekki til að taka af skarið í svona stórum og umdeildum málum. Hugrekki til að horfast í augu við að tíminn er einfaldlega ekki nægur og sáttin ekki nógu víðtæk. Kjósendur Samfylkingarinnar og um helmingur þjóðarinnar samkvæmt nýrri skoðanakönnun, vilja breyta stjórnarskránni fyrir kosningar. En kjósendur hljóta líka að vilja að við vöndum okkur og freistum þess að ná í þessu grundvallarmáli sem víðtækastri sátt. Náist sú sátt ekki eru hvort sem er nær engar líkur á að málið verði samþykkt á næsta Alþingi eins og Stjórnarskráin áskilur.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.