Viðskipti innlent

Alþjóðleg fyrirtæki í gjaldeyrishöftum

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Sigsteinn P. Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marels, segir að gjaldeyrishöftin hafi ekki áhrif á viðskiptavini félagsins og lítil áhrif á starfsmenn en talsverð áhrif á hluthafa og fjármögnunarmöguleika félagsins.
Sigsteinn P. Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marels, segir að gjaldeyrishöftin hafi ekki áhrif á viðskiptavini félagsins og lítil áhrif á starfsmenn en talsverð áhrif á hluthafa og fjármögnunarmöguleika félagsins. Fréttablaðið/Stefán
Íslenska hagkerfið var lokað innan gjaldeyrishafta á haustmánuðum 2008. Höftin veittu viðkvæmu hagkerfi skjól til skamms tíma en óumdeilt er að til lengri tíma valda þau hagkerfinu skaða. Stjórnvöld stefna að því að afnema gjaldeyrishöftin sem fyrst og með sem minnstum tilkostnaði. Það ætlar þó að reynast erfiðari raun en flestir gerðu ráð fyrir þegar höftin voru sett á.

Gjaldeyrishöftin settu alþjóðleg fyrirtæki sem starfa á Íslandi í einkennilega stöðu. Skyndilega voru tengsl íslensku hluta þeirra við erlendu hlutana rofin og þeim orðið skylt að hlíta mjög ströngum reglum um gjaldeyrisviðskipti. Markaðurinn ræddi við forsvarsmenn þriggja stærstu alþjóðlegu fyrirtækja landsins, Össurar, Marel og CCP, um áhrif gjaldeyrishaftanna á starfsemi fyrirtækjanna og efnahagslífið.

Höftin hafa ekki áhrif á daglegan reksturSegja má að gjaldeyrishöftin valdi minni fjölþjóðlegum fyrirtækjum meiri vandræðum en þeim stærstu sem geta fengið allsherjarundanþágu. Það er þó ekki þar með sagt að höftin séu umsvifamiklu fyrirtækjunum skaðlaus.

„Við erum vissulega á víðtækum undanþágum sem gilda fyrir allan daglega rekstur. Allt sem er fyrir utan daglegan rekstur er hins vegar mjög erfitt. Ég get nefnt sem dæmi að við höfum lent í miklum vandræðum vegna kaupréttarsamninga og annarra skuldbindinga sem eru eldri en höftin," segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, og heldur áfram:

„Stærsta breytingin fyrir okkur er hins vegar geta okkar til að nálgast erlent fjármagn til fjárfestingar í starfseminni á Íslandi. Félagið er fjármagnað erlendis og með lánasamninga við þrjá erlenda banka. Það er hins vegar skilyrði á þessum lánum að við megum ekki koma með peningana til Íslands og það er náttúrulega ákaflega skrýtin staða að það eru dótturfélögin erlendis sem skulda en ekki móðurfélagið."

Jón segir að þar sem Össur sé fjárhagslega sterkt félag geti það fjárfest í innviðum sínum hér á Íslandi án vandkvæða. Væri staðan önnur myndu gjaldeyrishöftin hins vegar verulega takmarka möguleika félagsins í þeim efnum.

Sigsteinn P. Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marels, tekur í svipaðan streng. Hann segir að gjaldeyrishöftin hafi engin áhrif á viðskiptavini félagsins og lítil áhrif á starfsmenn þess. Þau bitni hins vegar talsvert á hluthöfum þess, sérstaklega þeim erlendu.

„Í fyrsta lagi gera höftin það mun erfiðara að finna nýja erlenda hluthafa. Hluthafar þurfa nefnilega að horfa á ákveðinn afslátt af sinni eign einfaldlega vegna þeirrar óvissu sem felst í því að eiga krónueignir," segir Sigsteinn og heldur áfram:

„Þá hefur maður áhyggjur af því að reynsla þeirra erlendu fjárfesta sem þó eru í landinu sé síst til þess fallin að hvetja aðra til að fylgja fordæmi þeirra. Þeir fá höftin yfir sig, það hafa verið miklar skattkerfisbreytingar hérna sem þeir eiga erfitt með að skilja. Það eru fjárfestingartækifæri hérna, til dæmis í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans, en öll svona reynsla fælir fjárfesta frá og maður heyrir það að þetta hefur ekki farið fram hjá þeim."

Undanþágur frá reglum vafasöm undirstaðaHilmar Veigar segir að fyrstu vikurnar eftir að gjaldeyrishöftin voru sett á hafi verið æði skrautlegar hjá CCP. Komið hafi í ljós að fyrirtækið uppfyllti ekki skilyrði fyrir allsherjarundanþágu þar sem meira en 20% kostnaðar fyrirtækisins fellur til á Íslandi. „Það má nú reyndar minnast á það hvað það er skrýtinn hvati til að hafa í kerfinu, það beinlínis hvetur fyrirtæki til að flytja starfsemi til útlanda," segir Hilmar og heldur áfram:

„En það má segja að fyrsta árið í höftum hafi verið mjög erfitt þegar við vorum að læra á þetta. Seðlabankinn var þó allur af vilja gerður til að auðvelda okkur þetta og smám saman fór þetta að ganga betur en það fór mikill tími í að ganga frá öllum okkar málum þannig að við gætum starfað eðlilega að sem víðtækustu leyti og það fer enn nokkur tími í það," segir Hilmar.

Jón Sigurðsson segir að jafnvel þótt Össur starfi á allsherjarundanþágu sé það vafasamur grunnur til að byggja fyrirtæki á. „Þetta er undanþága sem við þurfum að sækja um á hverju ári. Það er að vísu bót í máli að það er búið að setja undanþáguskilyrðin í lög þannig að við höfum eitthvað fast í hendi en þetta gerir það samt sem áður að verkum að við þurfum að reka fyrirtækið frá ári til árs og það er mjög óþægilegt að geta ekki treyst áætlunum lengra fram í tímann en það," segir Jón og bætir við:

„Eftir því sem þetta ástand ílengist og höftin festast í sessi eykst þrýstingur frá erlendum hluthöfum í félaginu um að flytja það einfaldlega burt frá Íslandi en ég ætla nú ekki að spá því að það gerist."

Höftin erfiða söluræðunaHilmar Veigar segir að fyrirtæki á borð við CCP eigi í alþjóðlegri samkeppni um hæft starfsfólk. Fyrirtækinu hafi á liðnum árum tekist að fá þó nokkuð af hæfileikaríku erlendu starfsfólki til Íslands en bætir við að það sé varla hægt eftir að höftin voru sett á.

„Við leggjum eiginlega ekki í það að útskýra fyrir fólki sem er kannski með starfstilboð frá Google eða Facebook að ef það komi til Íslands og vinni fái það pening inn á íslenskan bankareikning en að það sé óvíst hvort það geti tekið peningana með sér aftur vilji það fara. Það er ekki góð söluræða," segir Hilmar og heldur áfram:

„Þetta þýðir að vöxtur fyrirtækisins verður í meiri mæli erlendis en ella því við getum eiginlega bara ráðið erlent fólk á skrifstofur okkar erlendis, sem er leiðinlegt því við höfum viljað fá reynslu þessa fólks hingað til lands."

sprotafyrirtækin sköðuðÞeir Hilmar, Jón og Sigsteinn eru allir sammála um að gjaldeyrishöftin standi nýsköpunarfyrirtækjum sem hyggjast hasla sér völl erlendis fyrir þrifum. Jón segir til dæmis alveg ljóst að Össur hefði ekki náð þeirri stöðu sem fyrirtækið hefur í dag ef gjaldeyrishöft hefðu verið til staðar á uppvaxtarárum fyrirtækisins. „Össur er stöndugt fyrirtæki með nóg af peningum. Við getum alveg verið með lögfræðistofu að vesenast út af þessum höftum og við getum tekið lán í erlendum bönkum. Þetta ástand er miklu erfiðara fyrir fyrirtæki sem geta það ekki og þar stendur hnífurinn í kúnni," segir Jón.

Spurður hvort CCP hefði getað vaxið og dafnað í haftaumhverfi svarar Hilmar: „Að því gefnu að við hefðum getað fengiðfjárfestingu hefði það mögulega sloppið. Þetta verður fyrst og fremst erfitt þegar fyrirtæki eru að taka skrefið úr því að vera lítið sprotafyrirtæki í það að vera millistórt alþjóðlegt fyrirtæki. Slík fyrirtæki þurfa erlenda fjárfestingu og viðskiptatengsl og höftin gera það allt miklu erfiðara, sem þýðir að við hættum á að missa þessi fyrirtæki sem þó komast á legg of snemma úr landi."

Sigsteinn segir að til að fyrirtæki vaxi úr grasi þurfi margt að koma til. Gjaldeyrishöft þýði ekki að sprotafyrirtæki fái ekki þrifist en hins vegar sé erfiðara að fóta sig í slíku umhverfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×