Innlent

Stærstu manngerðu ísgöng heims áætluð í Langjökli

Ísgöng í Langjökli. Verði áætlanir að veruleika verða grafin 300 metra göng í jökulinn. Innsti hluti þeirra verður á 30 metra dýpi og þar verða útbúnir hellar fyrir ferðamenn. Mynd/Vilhelm
Ísgöng í Langjökli. Verði áætlanir að veruleika verða grafin 300 metra göng í jökulinn. Innsti hluti þeirra verður á 30 metra dýpi og þar verða útbúnir hellar fyrir ferðamenn. Mynd/Vilhelm
Umhverfisstofnun er jákvæð í garð 300 metra langra ísganga og hella í Langjökli. Heilbrigðiseftirlit hefur áhyggjur af mengun. Á að laða að 20 þúsund gesti á ári, en þó lítið umfram þá sem fara á jökulinn. Fyrirhuguð 300 metra löng ísgöng í Langjökli yrðu stærstu manngerðu ísgöng í heimi, verði af framkvæmdinni. Verkfræðistofan Efla hefur unnið að verkefninu ásamt nokkrum ferðaþjónustuaðilum frá 2010. Umhverfisstofnun telur framkvæmdina ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og hún sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í tilkynningu Eflu til Skipulagsstofnunar kemur fram að með verkefninu eigi að gera Langjökul aðgengilegan ferðamönnum og vísindasamfélaginu á nýjan hátt, þar sem hægt verði að ganga ofan í jökulinn.

"Inni í göngunum mun fólk sjá hvernig jökullinn er að innan, hvernig snjór sem fellur á jökulinn verður að hjarni og loks að þéttum ís. Ætlunin er að inni í göngunum verði einnig settur fram fróðleikur um jöklana og áhrif hlýnunar andrúmsloftsins,“ segir í skýrslunni. Þá mætti einnig móta listaverk í ísinn.

Ferðaþjónustuaðilar á svæðinu eru hvatamenn að hugmyndinni, en líklega yrðu þetta fyrstu göng í hveljökli í heiminum sem yrðu opin almenningi. Í grófri rekstraráætlun kemur fram að áætlað sé að um tuttugu þúsund gestir sæki göngin heim á ári, en allt að áttatíu prósent þeirra heimsæki jökulinn hvort eð er. Aukningin væri því um 4.000 manns.

Stærstur hluti gesta mun koma upp á jökulinn við fjallaskálann Jaka á Geitlandi, en göngin yrðu staðsett í 1.250 metra hæð.

"Gert er ráð fyrir að fyrst verði grafin út um 300 m löng göng í ísinn. Innsti hluti þeirra verður þá á um 30 metra dýpi í jöklinum, í þéttum jökulís, og þar er gert ráð fyrir að útbúnir verði eins konar hellar þar sem tekið verður á móti ferðamönnum,“ segir í skýrslu Eflu.- kóp

Göngin. Ferðamenn þurfa að vera vel búnir, með hjálma og mannbrodda til að fara ofan í göngin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×