Skoðun

Nú er nóg komið – fylkjum liði!

Hómfríður Sólveig Haraldsdóttir og Margrét Ingibjörg Ríkarðsdóttir og Elsa María Guðmundsdóttir skrifa
Þetta er ákall til kvenfélaga á Íslandi og annarra félagasamtaka sem unnið hafa að uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu með gjafafé.

Umönnun sjúkra, fatlaðs fólks, aldraðra og stuðningur við þá sem minna mega sín hefur lengst af hvílt á herðum kvenna þessa lands.

Meðfram heimilisstörfum og hússtjórn varð það einnig þeirra hlutskipti gegnum aldirnar að sinna veikum og hjálparþurfi inni á heimilunum. Það var fyrir framsýni og hvatningu kvenna að aðstæðum fyrir þessa hópa var breytt – og til hins betra.

Fyrstu sjúkrastofnanir landsins og raunar flestar umönnunar- og hjúkrunarstofnanir eru byggðar fyrir hvatningu kvenna og að hluta til fyrir þeirra framlag. Kvenfélög og síðar ýmis önnur félagasamtök, þ.m.t. karlar einnig, hafa um áratugaskeið sinnt hjúkrunarstofnunum landsins með gjafafé.

Þetta gjafafé hefur að miklu leyti staðið undir fjármögnun til tækjakaupa hjá flestum eða öllum sjúkrahúsum landsins. Þess vegna hljóta þessi félagasamtök í landinu að hafa eitthvað að segja um niðurskurðaraðgerðir stjórnvalda.

Ríkisstjórnin hefur nú lagt til svo blóðugar niðurskurðaraðgerðir að ekki verður við unað. Stöndum vörð um heilbrigðiskerfið – og þær stofnanir sem félagasamtök hafa verið að styðja.

Saman getum við fundið leiðir til sparnaðar sem ekki bitna svo harkalega og ósvífið á heilbrigðisþjónustunni í landinu. Leitum leiða og vinnum saman.

Við hvetjum kvenfélög og líknarfélög, svo og alla landsmenn til að fylkja liði, þétta raðirnar og mótmæla harðlega. Það verður ekki aftur snúið ef fyrirætlanir ráðamanna ná fram að ganga og þá er viðbúið að umönnunarhlutverkið færist aftur inn á heimili þessa lands. Með öðrum orðum; við hrökkvum áratugi aftur í tímann í heilbrigðisþjónustu.

Látum það ekki henda íslenskt samfélag!

Hólmfríður Sólveig Haraldsdóttir

húsfreyja og ferðamálafræðingur

Margrét Ingibjörg Ríkarðsdóttir

forstöðumaður

Elsa María Guðmundsdóttir,

verkefnastjóri og aðstoðarforstöðumaður




Skoðun

Sjá meira


×