Skoðun

Eftirlit með bótagreiðslum

Runólfur Birgir Leifsson skrifar
Almannatryggingakerfið er ein af þeim grunnstoðum sem sameiginlegt velferðarkerfi okkar Íslendinga byggir á. Tryggingastofnun annast viðamikla þætti almannatrygginganna og greiðir árlega um 100 milljarða króna til einstaklinga af skatttekjum ríkissjóðs, en það samsvarar um það bil fimmtungi af fjárlögum ríkisins. Fyrst og fremst er hér um að ræða lífeyrisgreiðslur til ellilífeyrisþega og öryrkja, meðlagsgreiðslur og greiðslur til vistmanna á öldrunarstofnunum. Í hverjum mánuði fá um 55 þúsund einstaklingar greiðslur frá Tryggingastofnun, flestir fá greiðslur mánaðarlega og aðrir sjaldnar. Yfir árið fá um 70 þúsund manns einhverjar greiðslur frá Tryggingastofnun, en það jafngildir ríflega fimmtungi allrar þjóðarinnar.

Þegar um svo háar fjárhæðir er að ræða er mikilvægt að fara vel með og hafa hugfast að hér er um að ræða skattfé okkar Íslendinga. Tryggingastofnun annast greiðslur og þjónustu í samræmi við löggjöf sem Alþingi setur og hefur að meginmarkmiði að greiða réttar bætur til réttra aðila á réttum tíma. Almannatryggingakerfið er flókið og býður upp á hættur á mistökum og svikum. Það er því mikilvægt að hafa öflugt eftirlit með bótagreiðslum Tryggingastofnunar, eins og Ríkisendurskoðun hefur nýlega áréttað. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Tryggingastofnun hafi á undanförnum árum byggt upp eftirlit með bótagreiðslum, en mikilvægt sé að gera enn betur. Til þess þurfi stofnunin auknar eftirlitsheimildir í lögum og aukið rekstrarfé. Vísar Ríkisendurskoðun m.a. til hinna norrænu ríkjanna, sem hafa eflt sitt eftirlit umtalsvert á síðustu árum. Í skýrslunni er einnig tekið dæmi af sænsku tryggingastofnuninni (Försäkringskassan) sem fær um 4% af umfangi útgreiðslna til rekstursins, en rekstur Tryggingastofnunar nemur innan við 1% af umfangi útgreiðslna. Tryggingastofnun hefur verið brautryðjandi íslenskra stofnana í eftirliti með opinberum greiðslum og stefnir að því að gera enn betur.

Mistök og svik

Eftirlitið felst einkum í því að koma í veg fyrir mistök og svik. Mistök geta átt sér stað með ýmsum hætti t.d. vegna skráningarmistaka hjá starfsmönnum eða rangra upplýsinga frá lífeyrisþegum. Bótasvik eru mun alvarlegri og fela í sér ásetning um lögbrot. Slík svik tengjast oftast rangri upplýsingagjöf um búsetu, sambúðarform og tekjur. Reynslan hefur sýnt að fólk er þá m.a. að svíkja út heimilisuppbót, mæðra-/feðralaun, meðlag og lífeyri. Á síðasta ári voru samtals skráð 616 mál hjá eftirlitinu sem fengu áframhaldandi meðferð eftir skoðun. Flest komu í kjölfar eftirlitsvinnu innan stofnunarinnar, en nokkur eftir utanaðkomandi ábendingar.

Í kjölfar efnahagshrunsins var eins og margir hefðu velt meira fyrir sér siðferðisspurningum og meðal annars að ekki væri rétt að sumir kæmust upp með að svíkja út greiðslur sem fjármagnaðar eru af sameiginlegu skattfé okkar. Almenningur var því fyrst á eftir duglegur við að senda stofnuninni ábendingar um hugsanleg bótasvik og hefur það borið góðan árangur. Talsvert hefur dregið úr þessum ábendingum upp á síðkastið, hvort sem það stafar af áhugaleysi eða fækkun bótasvika. Á heimasíðu Tryggingastofnunar, www.tr.is, er að finna ábendingahnapp þar sem hægt er að koma með ábendingar um hugsanleg bótasvik.

Talið er að aðeins brot af bótasvikum uppgötvist árlega, en á síðasta ári voru stöðvaðar greiðslur sem nema um 100 milljónum króna á ársgrundvelli. Miðað við erlendar rannsóknir gætu svikin verið miklu umfangsmeiri eða á bilinu 2–3 milljarðar króna. Það er því mikilvægt að styrkja eftirlitsþátt Tryggingastofnunar og tryggja að skattfé okkar verði vel nýtt og fari aðeins til þeirra sem eiga rétt á því.

Samstarf við marga

Eftirlitseining Tryggingastofnunar á samstarf við marga aðila, bæði innanlands og erlendis. Hér innanlands má nefna lögregluna, Þjóðskrá Íslands, sveitarfélög og Ríkisskattstjóra. Erlendis er fyrst og fremst um að ræða systurstofnanir Tryggingastofnunar í nágrannalöndum okkar. Gott samstarf við erlendar stofnanir er mikilvægt því flutningur lífeyrisþega á milli landa færist í vöxt og hafa meðal annars komið upp tilvik þar sem einstaklingar reyna að fá sambærilegar greiðslutegundir frá tveimur löndum eða leyna erlendum tekjum. Til eru dæmi um einstaklinga á fullum örorkulífeyrisgreiðslum, sem virðast á sama tíma vera í fullri atvinnu erlendis eða í atvinnurekstri. Þeir skrá lögheimili sitt á Íslandi til að halda örorkulífeyri og viðhalda búseturétti vegna ellilífeyris og fleiri réttinda, en telja ekki fram erlendu tekjurnar á skattframtali. Hér er því um að ræða a.m.k. tvöfalt brot sem felst í að skrá rangt lögheimili og leyna erlendum tekjum.

Til að geta haldið uppi réttlátu og hagkvæmu lífeyriskerfi, öryggisneti sem grípur okkur ef við lendum í áföllum, þurfum við að standa saman um að koma í veg fyrir bótasvik – allir sem einn.




Skoðun

Sjá meira


×