Handbolti

Aron frábær í sigri Kiel

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson.
Þýski meistaratitillinn blasir við Kiel enn eina ferðina. Liðið vann öruggan sigur, 33-25, gegn Balingen í dag og er komið með fimm stiga forskot á toppnum þegar aðeins fimm umferðir eru eftir.

Leikmenn Kiel voru ryðgaðir framan af leik en þeir voru að spila í Ungverjalandi fyrir aðeins fjórum dögum síðan.

Balingen lét þá hafa fyrir hlutunum. Tók frumkvæðið strax í upphafi og leyfði Kiel aldrei að komast yfir í fyrri hálfleik. Balingen leiddi með einu marki í hálfleik, 16-17.

Kiel tók leikinn fastari tökum í síðari hálfleik og þegar stundarfjórðungur lifði leiks var liðið komið með fjögurra marka forskot, 25-21, og leit aldrei til baka eftir það.

Aron Pálmarsson var bestur á vellinum. Hann skoraði sex mörk fyrir Kiel og átti fjölda stoðsendinga. Guðjón Valur Sigurðsson fékk að hvíla að þessu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×