Skoðun

Að byggja eða ekki byggja nýjan Landspítala

Guðlaug Einarsdóttir skrifar
Í aðdraganda kosninga snerist umræða um heilbrigðismál að mestu um afstöðu framboða til byggingar nýs Landspítala. Að byggja eða ekki byggja. Flest framboðin eru fylgjandi þeirri stefnu sem alið hefur verið á síðustu ár, að þjóðin þurfi nýjan Landspítala. Slagorð tilvonandi framkvæmdar eru fyrir nokkru orðin mantra þjóðarinnar: Úreltur tækjakostur og Landspítalinn er starfræktur á 17 stöðum, þar af leiðandi þarf þjóðin nýjan Landspítala af þegar skilgreindri stærðargráðu. Heilbrigðisþjónustan þarf á innspýtingu að halda. Það geta allir verið sammála um, hvaða flokk sem þeir styðja. Hins vegar hafa aðrir valmöguleikar við nýjan Landspítala ekki verið settir fram og engu líkara en laga eigi heilbrigðisþjónustu þjóðarinnar í eitt skipti fyrir öll með þeirri stöku framkvæmd.

Heilbrigðisstarfsmenn eru því í erfiðri stöðu þegar þeim er boðin þessi stóra framkvæmd eftir áratugalangt svelti. Það segir því enginn „nei takk“ því það eru engir aðrir valmöguleikar settir fram.

Er bygging þarfasta framkvæmdin?

En er bygging nýs Landspítala þarfasta framkvæmdin í eflingu heilbrigðisþjónustunnar? Tækjakostur íslenskrar heilbrigðisþjónustu er síst minni en annarra OECD-landa og sömuleiðis er notkun þessara tækja meiri en þekkist meðal viðmiðunarþjóða okkar innan OECD. Starfsstöðvafjöldi Landspítalans er einnig hluti af möntrunni um nauðsyn byggingar nýs spítala. Í því samhengi væri fróðlegt að bera það saman við aðrar stofnanir eins og t.d. Háskóla Íslands – hvað ætli hann sé rekinn á mörgum stöðum? Það þarf ekki endilega að vera slæmt.

Ein rökin sem nefnd hafa verið fyrir byggingu nýs Landspítala er að eftirstríðskynslóðirnar stóru, sem sprengdu grunn-, framhalds- og háskólana á sínum tíma, þurfi nú stærri spítala þar sem þær þurfi nú á vaxandi heilbrigðisþjónustu að halda. Aldrað fólk þarf ekki lækningu á spítala, þó þörf þess fyrir heilbrigðisþjónustu aukist. Aldraðir þurfa fyrst og fremst grunnheilbrigðisþjónustu sem undirbúa þarf með eflingu heilsugæslunnar og félagsþjónustunnar, sem og fjölgun hjúkrunarrýma.

Ofuráhersla á byggingu

Gildandi lög um heilbrigðismál og heilbrigðisáætlun velferðarráðuneytisins sem mótar framtíðarsýn og setur markmið í heilbrigðismálum fram til ársins 2020, undirstrika að tryggja eigi grunnheilbrigðisþjónustu, sem hérlendis er byggð upp af heilsugæslustöðvum. Ofuráhersla á byggingu nýs spítala til að koma heilbrigðisþjónustu þjóðarinnar til bjargar hefur réttilega verið kallað stefnurek (e. policy drift) heilbrigðisþjónustunnar, þar sem lagasetning og heilbrigðisáætlun taka mið af tryggingu grunnheilbrigðisþjónustu en framkvæmdaþátturinn stangast hins vegar á við það og miðast fyrst og fremst að því að styrkja sérhæfða heilbrigðisþjónustu með byggingu nýs Landspítala.

Í fullkomnum heimi gætum við gert hvort tveggja, ráðist í stórar framkvæmdir til að styrkja bæði sérhæfða heilbrigðisþjónustu og grunnheilbrigðisþjónustu, því þörfin er vissulega fyrir hendi á báðum stöðum. En það er því miður ekki veruleiki okkar, síst af öllu í hægu bataferli eftir efnahagslegt hrun. Hætt er við því að ekki verði meira til skiptanna fyrir eflingu heilbrigðisþjónustu í fjárlögum næstu ára, ef af þessari dýru framkvæmd verður. Sú framtíðarsýn er uggvænleg fyrir grunnheilbrigðisþjónustu sem þegar þarf sárlega á styrkingu að halda.

Því hljótum við að verða að spyrja okkur, er bygging nýs Landspítala þarfasta framkvæmdin í eflingu heilbrigðisþjónustunnar?




Skoðun

Sjá meira


×