Innlent

Telja víst að fé sé dautt

Jakob Bjarnar skrifar
Vilhjálmur Snædal segir vitað að féð sé mikið í kílunum sem eru uppbólgnir af krapa og vatni og um það fé þurfi ekki að spyrja.
Vilhjálmur Snædal segir vitað að féð sé mikið í kílunum sem eru uppbólgnir af krapa og vatni og um það fé þurfi ekki að spyrja.
Vilhjálmur Snædal, bóndi á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal segir líta afskaplega illa út með fé sem varð fyrir óveðrinu sem gengið hefur yfir landið undanfarna daga. Kominn er gaddur en bændur á Dal eru nú að halda á heiðina til að athuga með afdrif fjárins.

Bændur á Jökuldal óttast nú um fé sitt eftir mikið óveður sem þar hefur gengið yfir. Vilhjálmur Snædal, á Skjöldólfsstöðum, segir erfitt að segja til um stöðu mála sem stendur en bændur stefna nú á heiðina á sleðum til að athuga með féð, aðstæður eru mjög erfiðar.

„Staða mála núna (um hádegi) er sú að komið er bjart veður. Menn eru í óða önn, hafa verið að brasa við fé í veðri sem hefur verið verulega vont. Ógeðslegt – eins og veður á ekki að vera þegar verið er að eiga við fé. En nú er orðið bjart. Einn er farinn á sleða í heiðina. Honum lýst illa á. Sér ekki neitt enn -- lifandi. Og það er ... já, það er bara gaddur,“ segir Vilhjálmur bóndi.

Vilhjálmur telur engar líkur á öðru en fé sé dautt í stórum stíl. (Myndin er frá í fyrra þegar menn lentu í fjárskaða.)
Menn eru nú að safnast saman á sleðum sínum og ætla að fara hratt yfir til að sjá hvernig þetta er. „Hún er svo víðlend heiðin að menn leita nú ekki mikið í hverjum skafli fyrir sig. Við vitum að þetta er mikið í kílunum sem eru uppbólgnir af krapa og vatni. Og það þarf ekkert að spyrja um það fé. Það er dautt!“

Vilhjálmi lýst afar illa á og óttast að það verði óskaplega fátt sem komi niður í dal lifandi. „Þetta eru mörg, mörg hundruð. Þetta skiptir hundruðum. Það var ekki búið að smala þetta. Byrjað var að smala Efri-Dal sem við köllum, innan við Gilsá, í fínasta veðri. Svo er haldið áfram út eftir, í átt til sjávar. En, svo vakna menn morguninn eftir, til að halda áfram en þá í kolvitlausu veðri. Stórhríð, hvassviðrið var svo mikið og þá sópar svo mikið niður í. Það hverfur allt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×