Viðskipti innlent

250 tonn af lambakjöti til Bandaríkjanna

Haraldur Guðmundsson skrifar
Starfsmenn Whole Foods komu hingað til lands fyrr í haust og fóru meðal annars í réttir.
Starfsmenn Whole Foods komu hingað til lands fyrr í haust og fóru meðal annars í réttir. Fréttablaðið/Valgarður
„Við höfum nú þegar sent um 140 tonn af lambakjöti til Bandaríkjanna og stefnum á að senda 110 tonn til viðbótar,“ segir Magnús Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri Sláturhúss KVH á Hvammstanga.

Sláturhúsið hefur frá árinu 2007 selt bandarísku matvæla­keðjunni Whole Foods Market ófrosið íslenskt lambakjöt. Kjötið er selt sem hágæðavara í ­verslunum ­keðjunnar og er merkt íslenska þjóðfánanum í bak og fyrir.

„Árið 2007 fóru um 25 tonn frá okkur en í fyrra fluttum við út um 190 tonn af kjöti,“ segir Magnús.

Hann segir að um tíu prósent af framleiðslu sláturhússins fari til Bandaríkjanna og að Whole Foods kaupi alla hluta af lambinu.

„Við hættum að senda út í byrjun nóvember en einhverjar verslanir eru með kjötið í sölu yfir þakkargjörðarhátíðina í lok mánaðarins.“

Fyrr í þessum mánuði kom hópur starfsmanna Whole Foods til landsins í árlegri haustferð fyrirtækisins. Tilgangur ferðanna er að sögn Magnúsar að leyfa því starfsfólki sem kemur að sölu á lambakjötinu að kynnast landi og þjóð.

„Verkefnið er í heild góð landkynning, byggð á heilnæmri vöru úr hreinu umhverfi,“ segir ­Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×