Innlent

Lögreglan vann þrekvirki

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
„Lögreglumenn sem stóðu vaktina í Búsáhaldabyltingunni unnu þrekvirki." Þetta segir félagsfræðingur við Háskóla Íslands sem birti í dag niðurstöður úr viðtölum sínum við lögreglumenn sem voru við Alþingi á haustmánuðum ársins 2008. Stilling lögreglunnar varð til þess að ekki fór verr.

Búsáhaldabyltingin var einstakur atburður í íslenskri sögu. Lengd mótmælanna, fjöldi þátttakenda og átökin eiga sér enga hliðstæðu. Í alþjóðlegu samhengi voru mótmælin merkilega fyrir ýmsar sakir, ekki síst fyrir það hversu lítið ofbeldi tengdist þeim, þó svo að flestir þættir sem ýta undir ofbeldi hafi verið til staðar.

Ingólfur Gíslason, félagsfræðingur, hefur rýnt í ástæðurnar fyrir þessu. Hann hefur rætt við lögreglumenn sem stóðu vaktina fyrir utan Alþingi haustið 2008 og birti niðurstöður sínar í dag í Þjóðarspeglinum, ráðstefnu Félagsvísindastofnunar.

„Niðurstöðurnar gefa til kynna að aðferðir lögreglunnar í mannfjöldastjórnun, þar sem einstaka lögreglumenn hurfu í sjálfa liðsheildina, sé meginástæðan fyrir því að ekki fór verr. Við það bætist að lögreglumennirnir höfðu verulega samúð með mótmælendum, margir hverjir í sömu sporum og þeir sem sáu lán sín rjúka upp úr öllu valdi.“

„Þrátt fyrir umhverfisþætti sem hefðu átt að stuðla að meira ofbeldi þá átti það sér ekki að stað. Þarna var gífurlegur hiti og óþægindi. Lögreglumennirnir voru í 30 kílóa brynjum, sveittir og með sár eftir brynjurnar. Þessi mikli mannfjöldi og stöðugar ögranir — allt hefði þetta átt að stuðla að meira ofbeldi,“ segir Ingólfur.

Ingólfur segir að lögreglan hafi unnið mikið þrekvirki í byltingunni. Það komi ekki á óvart að lögreglan sé sú stofnun sem njóti mests trausts meðal almennings.

„Það sem að minnstu munaði að allt færi á versta veg var árásin á lögreglustöðina, 22. nóvember. Þar voru lögreglumennirnir líka að gagnrýna þessa friðsemdarlínu sem yfirstjórnin lagði. Þeir hefðu viljað að gasi yrði beitt og þarna hefði fólk einfaldlega verið handleggsbrotið.“

„Ef að almenningur hefði upplifað það að lögreglan væri hreinlega hluti af eða gengin í lið með þessu siðspillta liði þá hefði það getað orðið neistinn hefði kveikt í púðurtunnunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×