Viðskipti innlent

Mikil pressa og hasar fyrir jólin

Haraldur Guðmundsson skrifar
Um tuttugu prósent af heildarsendingum DHL fara í gegnum fyrirtækið í desember.
Um tuttugu prósent af heildarsendingum DHL fara í gegnum fyrirtækið í desember. Fréttablaðið/Daníel.
„Okkar stærsta tímabil er nú hafið af fullum þunga. Heildarfjöldi sendinga fer upp um þrjátíu til fjörutíu prósent í þessum mánuði og stærstu dagarnir eru tvöfaldir á við hefðbundna daga,“ segir Atli Freyr Einarsson, framkvæmdastjóri DHL Express á Íslandi.

„Þetta er mikil pressa og hasar en þetta eru aðstæður sem við þekkjum og höfum farið í gegnum margsinnis áður.“

Atli segir að stór hluti sendinganna innihaldi vörur innlendra verslana sem fara í sölu fyrir jólin.

„Við urðum vör við að jólaösin byrjaði aðeins seinna í ár en venjulega. Hún hefur yfirleitt hafist í lok október eða byrjun nóvember en byrjaði í ár ekki fyrr en í lok nóvember,“ segir Atli og bætir því við að annar stór hluti sendinga innihaldi jólagjafir sem Íslendingar senda út.

Atli áætlar að um 18-20 prósent af heildarsendingum ársins fari í gegnum fyrirtækið í desembermánuði.

„Í ofanálag hefur orðið sprenging í fjölda sendinga frá erlendum vefverslunum,“ segir Atli. Hann segir að sendingum frá slíkum síðum hafi fjölgað um þrjátíu prósent á þessu ári. Þar er um að ræða sendingar á vörum af ýmsum toga; bókum, bílavarahlutum, fatnaði, húsgögnum, tölvuleikjum og snyrtivörum.

„Við höfum þurft að laga okkur að þessu því hver tilraun til afhendingar eykur okkar kostnað. Við höfum til dæmis komið með nýjung sem er fólgin í því að að við sendum sjálfvirkt sms til þeirra sem eiga sendingar hjá okkur þar sem við látum viðkomandi vita að við munum koma sendingunni til þeirra þann daginn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×