Innlent

Fleiri Íslendingar fá þunga dóma í Danmörku

Stígur Helgason skrifar
Guðmundur Ingi Þóroddsson var annar höfuðpauranna í málinu, ásamt Peter Baungård. Guðmundur fékk tólf ára dóm í sumar.
Guðmundur Ingi Þóroddsson var annar höfuðpauranna í málinu, ásamt Peter Baungård. Guðmundur fékk tólf ára dóm í sumar.
Dómstóll í Kaupmannahöfn fann í dag fjóra Íslendinga seka um aðild að stóru fíkniefnamáli sem þar hefur verið til rannsóknar frá því um mitt ár 2011. Þrír Íslendingar höfðu þegar hlotið fangelsisdóma vegna málsins, sem snýst um smygl á samtals tæplega 70 kílóum af amfetamíni frá Hollands til Danmerkur.

Tveir Íslendingar voru dæmdir til fangelsisvistar fyrr í dag; Ágúst Georg Csillag, 21 árs, hlaut tíu ára dóm og Erlingur Bergmann Karlsson, 24 ára, hlaut sex ára dóm.

Einn Íslendinganna fjögurra hefur undanfarið dvalið á geðspítala og var dæmdur til áframhaldandi vistar á slíkri stofnun. Sá fjórði, sem samkvæmt ákærunni var mjög atkvæðamikill í málinu, var dæmdur sekur en ákvörðun um refsingu hans frestað þar sem til stendur að láta hann gangast undir geðrannsókn til að hægt sé að úrskurða um sakhæfi hans.

Annar höfuðpauranna í málinu, Guðmundur Ingi Þóroddsson, var fyrr í sumar dæmdur í tólf ára fangelsi. Hann mátti eiga von á fjórtán ára dómi en vegna játningar hans og hjálpar við að upplýsa um þátt hinna var aðeins farið fram á tólf ár.

Tveir Íslendingar til viðbótar, Heimir Sigurðsson, 50 ára, og Sturla Þórhallsson, 25 ára, hlutu í ágúst tíu ára dóma fyrir aðild sína að málinu.

Í dag voru þrír menn enn dæmdir til fangelsisvistar í málinu. Hinn höfuðpaurinn, Peter Baungård, 43 ára, hlaut tíu ára dóm. Yfirréttur þyngdi í sumar refsingu hans fyrir annað fíkniefnamál úr ellefu árum í tólf.

Þá fékk Mads Malmquist Rasmussen, 29 ára, sjö ára dóm og Enzo Rinaldi, 40 ára, sex ára dóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×