Innlent

Höfðun dómsmáls frestar ekki framkvæmdum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Hraunavinir eru meðal þeirra sem vilja stöðva framkvæmdir við Gálgahraun og hafa síðustu daga staðið fyrir mótmælum á vinnusvæðinu.
Hraunavinir eru meðal þeirra sem vilja stöðva framkvæmdir við Gálgahraun og hafa síðustu daga staðið fyrir mótmælum á vinnusvæðinu. Mynd/GVA
„Ef fallist yrði á að stöðva framkvæmdir myndi það í fyrsta lagi hafa í för með sér að Vegagerðin yrði að greiða skaðabætur. Jafnframt  væri um leið verið að fallast á það að hægt væri að stöðva allar framkvæmdir á meðan á dómsmálum stendur, standi hugur manna til þess.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni þar sem útskýrt er af hverju ekki sé gerlegt að bíða niðurstöðu dómstóla í málum er varða Álftanesveginn og Gálgahraun.

Sagt er í tilkynningu að flest hafi verið kært sem hægt er að kæra og ítrekað verið reynt á gildi umhverfismats og framkvæmdaleyfis. Höfðuð hafa verið tvö dómsmál sem eru í gangi og margi telji eðlilegt að Vegagerðin stöðvi framkvæmdir á meðan og bíði niðurstöðu málanna.

Einnig er bent á að Vegagerðin gæti þurft að borga skaðabætur enda búið að bjóða verkið út, opna tilboð og skrifa undir verksamning við verktaka.

Jafnframt að ekki sé hægt að stöðva allar framkvæmdir á meðan á dómsmálum stendur.

„Ef að loknum núverandi dómsmálum yrði kært á þeirri forsendu að vegurinn væri of nálægt byggðinni, ætti þá aftur að stöðva framkvæmdir? Hvar gæti það endað? Fleiri gætu haft ýmislegt annað við framkvæmdina að athuga, svo sem eins og gengur og gerist, og því væri endalaust hægt að höfða dómsmál til að stöðva framkvæmdir," segir í tilkynningu.

Vegagerðin bendir á að málið um lögmæti framkvæmdanna gæti tekið mjög langan tíma því jafnvel þótt umhverfismatið og/eða framkvæmdaleyfið yrði fellt úr gildi þýddi það einungis að fara þyrfti aftur í mat á umhverfisáhrifum og ekki við öðru að búast en að niðurstaða þess yrði sú sama og fyrri mata. Sú leið myndi því einungis tefja framkvæmdina, en ekki koma í veg fyrir hana.

Að lokum segir í tilkynningunni að meginregla íslensk réttarfars sé að höfðun dómsmáls fresti ekki framkvæmdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×