Handbolti

Einum sigri frá einstakri byrjun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðið vann fyrstu fjóra leikina undir stjórn Arons með sjö mörkum eða meira.Fréttablaðið/valli
Landsliðið vann fyrstu fjóra leikina undir stjórn Arons með sjö mörkum eða meira.Fréttablaðið/valli
Aroni Kristjánssyni tókst ekki að bæta met þeirra Jóhanns Inga Gunnarssonar og Karls G. Benediktssonar þegar íslenska landsliðið tapaði fyrir Svíum. Þeir þrír eiga því allir metið saman yfir bestu byrjun landsliðsþjálfara frá upphafi.

Aron Kristjánsson varð að sætta sig við sitt fyrsta tap sem þjálfari íslenska handboltalandsliðsins þegar strákarnir töpuðu fyrir Svíum á þriðjudagskvöldið en þetta var síðasti æfingaleikur liðsins fyrir HM á Spáni.

Íslenska liðið var fyrir leikinn búið að vinna alla fjóra leiki sína frá því að Aron tók við liðinu af Guðmundi Guðmundssyni og allir höfðu þeir unnist með sjö mörkum eða meira.

Reyndar stefndi í fimmta sigurinn í röð þegar íslenska liðið var komið sex mörkum yfir á móti Svíum, 15-9, þegar rúmar sex mínútur voru til hálfleiks. Svíar unnu hins vegar síðustu fimm mínútur hálfleiksins, 5-0, minnkuðu muninn í eitt mark fyrir hlé, 15-14, og unnu að lokum tveggja marka sigur, 31-29.

Aron hafði fyrir leikinn komst í hóp með þeim Karli G. Benediktssyni og Jóhanni Inga Gunnarssyni eftir að íslenska liðið vann sinn fjórða leik í röð undir hans stjórn í leiknum á undan en sá leikur var á móti Túnis í Laugardalshöllinni. Íslenska liðið hafði unnið Túnis kvöldið áður á sama stað auk þess að vinna báða umspilsleiki sína um mánaðarmótin október og nóvember en það voru fyrstu leikir liðsins undir stjórn Arons. Aron gerði betur en átta forverar hans í starfinu.

Karl fyrstur í hópinn 1964

Karl G. Benediktsson var fyrsti íslenski landsliðsþjálfarinn til þess að stýra liðinu til sigurs í fjórum fyrstu leikjunum. Hann tók við landsliðinu fyrir HM í Tékkóslóvakíu 1964 en hafði verið fyrirliði þess í síðustu landsleikjum sínum árið áður.

Íslenska landsliðið byrjaði á því að vinna tvo æfingaleiki við Bandaríkjamenn, sem fóru báðir fram á Keflavíkurflugvelli, áður en liðið fór til Tékkóslóvakíu og vann síðan tvo fyrstu leiki sína á HM. Ísland vann fyrst 16-8 sigur á Egyptum og lagði síðan geysisterkt sænskt landslið 12-10 í eftirminnilegum leik. 12-21 tap á móti Ungverjum í lokaleiknum í riðlinum kostaði hins vegar íslenska liðið sæti í milliriðlinum en Svíar fóru alla leið í úrslitaleikinn þar sem þeir töpuðu fyrir Rúmenum.

Karl náði frábærum árangri á sínu fyrsta ári því íslenska liðið endaði árið á því að vinna Spánverja tvisvar sinnum í nóvember og vann því 6 af 7 leikjum (86 prósent) á hans fyrsta ári í starfi. Karl stýrði landsliðinu til 1968 og svo aftur á áttunda áratugnum.

Jóhann Ingi bættist í hópinn fjórtán árum síðar eða þegar hann var aðeins 24 ára gamall. Jóhann Ingi tók við liðinu eftir HM í Danmörku 1978 þar sem allir leikirnir töpuðust. Jóhann Ingi byrjaði á því að stýra liðinu til sigurs í þremur leikjum við Færeyjar og liðið vann síðan 25-20 sigur á Túnis í fyrsta leik sínum á æfingamóti í Frakklandi í nóvember.

Fyrsta tapið kom síðan í fimmta leik þegar liðið tapaði 22-23 á móti Pólverjum í æsispennandi leik. Jóhann Ingi þjálfaði íslenska liðið til ársins 1980 en hann átti síðar eftir að þjálfa Kiel í fjögur tímabil og gera TUSEM Essen að Þýskalandsmeisturum 1986.

Þorbjörn Jensson er sá þjálfari liðsins frá tíð Jóhanns Inga sem komst næst því að bætast í hópinn en íslenska liðið vann þrjá fyrstu leikina undir hans stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×