Viðskipti innlent

Athugar að stýra rennsli fossa og hlífa Eyvafeni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Landsvirkjun vill kanna hvort unnt sé að haga Norðlingaölduveitu þannig að lón hennar nái ekki inn í Eyvafen. Þá býðst fyrirtækið til að halda rennsli á Dynk og öðrum fossum efri Þjórsár yfir sumartímann.

Umræðan um Þjórsárver hefur enn og aftur blossað upp eftir að umhverfisráðherra frestaði því fyrir helgi að stækka friðlandið vegna athugasemda Landsvirkjunar. Stækkun friðlandsins hefði þýtt að áform um frekari nýtingu efri Þjórsár til raforkuframleiðslu hefðu verið slegin af.

Um 40 prósent af rennsli efri Þjórsár eru þegar virkjuð með svokallaðri Kvíslaveitu en Landsvirkjun hefur lengi áformað að ná 30 prósentum til viðbótar með Norðlingaölduveitu. Með henni yrði hluta Þjórsár veitt um jarðgöng til Þórisvatns, til að framleiða meira rafmagn í virkjunum við Vatnsfell, Sigöldu, Hrauneyjafoss og Búðarháls.

Helstu rök andstæðinga er að veitan rýri náttúruverndargildi Þjórsárvera og skerði fossana Dynk, Gljúfurleitarfoss og Kjálkaversfoss. Á móti segir Landsvirkjun þetta einn hagkvæmasta orkukost landsins, tíu milljörðum króna ódýrari en Búðarhálsvirkjun en með álíka mikilli orku.

Fyrstu hugmyndir gerðu ráð fyrir að stórum hluta Þjórsárvera yrði sökkt en árið 2002 féllst Skipulagsstofnun á útfærslu, sem kallaði á hörð mótmæli, þar sem hluti lónsins átti að ná inn á friðland Þjórsárvera. Úrskurður Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra, árið 2003, og síðar dómur Héraðsdóms árið 2006, færðu lónið alveg út úr friðlandinu.

Það varð til þess að andstæðingar settu fram nýja kröfu; að friðlandið yrði stækkað suður yfir Norðlingaöldu, meðal annars með þeim rökum að svokallað Eyvafen teldist hluti Þjórsárvera.

Landslag við Norðlingaöldu einkennist af sandöldum og í nýlegri umsögn segir Landsvirkjun að ekki hafi verið sett fram skýr rök fyrir stækkun friðlandsins í þessa átt enda finnist þarna varla vottur af svokallaðri rústamýrarvist.

Þá segist Landsvirkjun jafnframt vilja skoða hvort halda megi áformuðu lóni utan Eyvafens og útfæra hugmyndir um rennslistýringu til að draga úr áhrifum á fossana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×