Skoðun

Endurskoðun stjórnarskrár

Ágúst Þór Árnason og Skúli Magnússon skrifar
Endurskoðunarferlið, sem hrundið var af stað sumarið 2010, einkenndist af viðleitni til að umbreyta í flýti öllum þáttum íslenskrar stjórnskipunar og þá án tillits til þess hvort gildandi réttur væri í raun og veru annmörkum háður. Þannig má segja að tillögur stjórnlagaráðs, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað í meginatriðum að gera að sínum með frumvarpi í árslok 2012, hafi átt að fela í sér nýtt upphaf íslenskrar stjórnskipunar. Áður en yfir lauk varð þó flestum ljóst að efni hinnar ráðgerðu stjórnskipunar var um sumt beinlínis varhugavert, en þarfnaðist um annað nánari skoðunar. Alltof mikið hafði verið færst í fang og heildarendurskoðunin rann út í sandinn.

Þótt margir andi léttar yfir því að hin stjórnskipulega óvissuferð, sem blásið var til með tillögunum, sé fyrir bí, stendur óhaggað eftir að íslensk stjórnskipun þarfnast um ákveðin atriði endurskoðunar og úrbóta. Sumir þættir endurskoðunar eru þess eðlis að markmið eru að meginstefnu óumdeild en ágreiningur kann að vera um nánari útfærslu. Hér má nefna sem dæmi styrkingu Alþingis og eftirlits þess með framkvæmdarvaldinu, reglur um dómstóla, heimildir til framsals valds til alþjóðlegra stofnana og e.t.v. einnig auknar heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslna. Önnur atriði eru í meiri mæli háð pólitískri stefnumörkun (í víðasta skilningi þess orðs), svo sem álitaefni um auðlindir, kosninga- og kjördæmaskipan, ýmis mannréttindi og staða þjóðkirkjunnar. Undir þennan flokk fellur einnig að verulegu leyti hlutverk forseta Íslands og hin ósvaraða grundvallarspurning hvort Íslendingar vilji þjóðþingsstjórn eða blandaða stjórnskipun byggða á valdtemprun.

Það er ekki sjálfsagt að stjórnarskrá sé endurskoðuð í heild í einni atlögu. Sum atriði eru þess eðlis að ekkert er því til fyrirstöðu að ganga beint til verks, jafnvel þannig að nýtt sé sú tímabundna heimild til stjórnarskrárbreytingar sem samþykkt var undir lok síðasta þings. Annað kann hins vegar að krefjast meiri tíma, umræðu og yfirvegunar, ekki síst sérlega vandasöm efni, t.d. mannréttindi, svo og þau atriði sem um ríkir grundvallarágreiningur. Þótt Alþingi beri stjórnskipulega meginábyrgð á endurskoðun stjórnarskrár eru ýmsar leiðir færar til að auka aðkomu almennings og gera endurskoðunarferli gagnsætt. Þá kæmi t.d. til greina að setja upp fleiri en einn hóp sérfræðinga til ráðgjafar þingmannanefnd í því skyni að greina leiðir að markmiðum og meta fyrirsjáanleg áhrif tillagna, allt eftir því hversu mörg svið væru undir. Með þessu gæti náðst sá megintilgangur að skapa ábyrgt og trúverðugt endurskoðunarferli þar sem bætt væri úr raunverulegum annmörkum á íslenskri stjórnskipun með faglegum hætti með breiða samstöðu að leiðarljósi.




Skoðun

Sjá meira


×