Skoðun

Aukum fjárfestingar í sjávarklasanum

Arnar Jónsson skrifar
Flestar tæknigreinar sem þjóna sjávarútvegi hafa vaxið mikið á undanförnum árum og mikil tækifæri eru í greininni. Fyrirtækin spanna breitt svið og koma meðal annars að framleiðslu fiskvinnsluvéla, veiðarfæra, fjarskiptabúnaðar, kælitækni, umbúða og hugbúnaðargerð svo eitthvað sé nefnt. Stöðug nýsköpun er í gangi.

Það felast mörg tækifæri í þeim 65 tæknifyrirtækjum sem stunda útflutning af einhverju tagi í tengslum við sjávarútveg. Þessi fyrirtæki fluttu út tækjabúnað og aðrar vörur fyrir rúma 20 milljarða árið 2012. Að auki var sala á innanlandsmarkaði um 11 milljarðar. Ef þessi fyrirtæki vaxa á sama hátt og þau hafa gert undanfarin tvö ár má gera ráð fyrir að velta þeirra geti numið allt að 100 milljörðum árið 2023.

Þótt sú staðreynd blasi við að starfsfólki í fiskvinnslu og veiðum fari fækkandi þá má fjölga fólki í þekkingargreinum eins og í tengslum við tæknifyrirtækin. Það sem er að eiga sér stað er einfaldlega færsla á störfum. Sem dæmi má nefna þá gildir almennt að fyrir hverja 5-10 sem áður unnu við tiltekna vinnslu kemur í staðinn tækjabúnaður sem jafnvel 40 manns hafa unnið að; bæði við þróun, smíði og uppsetningu. Þessi tækjabúnaður býður bæði upp á sérhæfðari og betur launaðri störf ásamt því að um er að ræða dýrar vélar sem koma til með að verða að verðmætri útflutningsvöru. Að því ógleymdu að tækjabúnaðurinn skilar verðmætaaukningu á sjálfu hráefninu.

Fiskur er í dag okkar helsta útflutningsvara, en ekki má gleyma að samhliða fiskvinnslu hafa sprottið upp þekkingarfyrirtæki sem þjónusta útgerðirnar. Þau hafa þróað tækni og þjónustu fyrir sjávarútveginn, sem nú er orðinn sérstök útflutningsvara. Mörg fyrirtæki, sem hófu sinn rekstur við að þjónusta útgerðirnar hér á landi, hafa þróast á þann veg að núna telur íslenski markaðurinn einungis lítinn hluta af veltu þeirra. Þau hafa því orðið öflug útflutningsfyrirtæki. Þar liggur framtíðin, ekki í veiðunum og vinnslunni sjálfri, heldur hjá menntuðu starfsfólki sem vinnur við að þróa vörur og tækni fyrir sjávarútveg.

Samstarf tæknifyrirtækja

Til að hnykkja á þessari útrás ýtti Íslenski sjávarklasinn úr vör samvinnuverkefni tæknifyrirtækja í haftengdri starfsemi. Verkefnið nefnist Green Marine Technology og snýr að því að vekja athygli á þeim framúrskarandi grænu tæknilausnum sem mörg tæknifyrirtækjanna bjóða upp á. Lausnirnar stuðla að bættu umhverfi með betri nýtingu orkugjafa, minni olíunotkun búnaðar, betri nýtingu í vinnslu hráefna, til að nefna dæmi. Með þessu nýja verkefni er ætlunin að efla samstarf tæknifyrirtækja og um leið kynna framúrskarandi tækni fyrir alþjóðlegan sjávarútveg og vinnslu. Græn meðvitund hefur rutt sér til rúms um allan heim, því er mikilvægt að Ísland haldi vel á spöðunum og taki þátt í því að leiða þessa þróun.

Til þess að stuðla að þeirri nýsköpun sem var greint frá hér að ofan þarf að auka fjárfestingar í sjávarútvegi. Hættan við núverandi fyrirkomulag veiðigjaldsins er að gjaldið dregur úr því bolmagni sem þarf til nýsköpunar og hvers konar þróunarstarfs. Veiðigjöldin þarf að lækka þannig að sjávarútvegurinn ráði við þau og geti hafið fjárfestingar að nýju. Finna þarf leið til þess að auka fjárfestingar í nýsköpun í sjávarklasanum og besta leiðin til þess er að útfæra sanngjarnt veiðigjald á þá leið að þeir sem fjárfesti í tæknibúnaði og annarri nýsköpun í tengslum við sjávarútveg hafi þann kost að lækka veiðigjaldið.




Skoðun

Sjá meira


×