Innlent

Hugo Þórisson er látinn

Hugo Þórisson sálfræðingur er látinn.
Hugo Þórisson sálfræðingur er látinn. mynd/365
Hugo Þórisson sálfræðingur er látinn. Á Facebook-síðu hans, Hollráð Hugos, kemur fram að hann hafi látist í gærmorgun. Hugo greindist með krabbamein fyrir þremur árum og háði hann mikla baráttu við meinið.

Það eru börn Hugos sem settu tilkynninguna um lát hans á síðuna hans. Þar segja þau að það hafi styrkt hann í baráttunni og hvatt hann áfram að eiga dygga lesendur og að hann hafi notið þess að lesa athugasemdir frá lesendum sínum. Hann vissi í upphafi að meinið var ólæknandi en gekk í gegnum erfiðar lyfjameðferðir til að hægja á vextinum.

Hann stofnaði fyrirtækið Hollráð Hugos og gaf út bókina Hollráð Hugos: Hlustum á börnin okkar, DVD diskinn Samskipti foreldra og barna með upptöku af fyrirlestri.  Hann gerði sjónvarpsþættina Hollráð Hugos sem sýndir voru á Stöð 2.

Í tilkynningunni frá börnunum kemur fram að hann hafi verið stoltur af því að hafa getað lokið starfsferli sínum með þessum hætti og getað komið  ævistarfi sínu frá sér með þeim hætti sem hann gerði.

Börnin hans taka nú við fyrirtækinu hans og ætla sér að halda áfram að halda úti Facebook-síðunni og leita í þann gríðarmikla gagnabanka sem hann skilur eftir sig því af nógu sé að taka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×