Lífið

Helgi syngur Hauk í Þýskalandi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Helgi Björnsson syngur lög Hauks Morthens í Berlín um helgina.
Helgi Björnsson syngur lög Hauks Morthens í Berlín um helgina. Mynd/Stefán
„Ég er að fara að syngja með þeirri frábæru hljómsveit Capital Dance Orchestra í Berlín, þetta verður skemmtilegt,“ segir tónlistarmaðurinn Helgi Björnsson.

Helgi mun flytja þar nokkur lög Hauks Morthens, sem hann flutti á tónleikum í Hörpu fyrr í mánuðinum með sömu hljómsveit. Tónleikarnir eru í tilefni þess að Asphalt-klúbburinn í Berlín, sem er í kjallara Hilton-hótelsins, heldur upp á afmælið á laugardaginn.

„Bandið er að spila þar og ætlar að safna saman nokkrum söngvurum.“ Á meðal þeirra söngvara sem fram koma ásamt Helga eru Barbara Schöneberger, Katja Riemann og pönkdrottningin Nina Hagen, ásamt fleirum.

„Hljómsveitin var mjög hrifin af Íslandi og tónlistinni sem við lékum og það kom ekkert annað til greina en að syngja bara Hauk í Berlín,“ bætir Helgi við, en hann syngur ekki þessi klassísku djasslög heldur eingöngu lög Hauks. „Ég syng bara nokkur lög á þessum tónleikum en stefni þó á að halda stærri tónleika í Berlín eftir áramót.“

Platan Helgi syngur Hauk kom út í október síðastliðnum og hefur farið vel af stað og stefnir í gull.

Helgi þekkir borgina vel en hann var á sínum tíma í leikhúsrekstri í Berlín og hefur verið með annan fótinn þar undanfarið. „Berlín er yndisleg borg, lifandi og frísk. Ég myndi segja að þetta væri höfuðborg Evrópu.“

Platan Helgi syngur Hauk sem kom út í október stefnir í gull.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.