Handbolti

Íslendingaliðin skildu jöfn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Dagur var ekki sáttur í lokin.
Dagur var ekki sáttur í lokin.
Rhein-Neckar Löwen stal stigi í Berlín þegar liðið náði 21-21 jafntefli gegn Füchse Berlin. Patrick Groetzki jafnaði metin á síðustu sekúndu leiksins með umdeildu marki.

Heimamenn í Füchse byrjuðu leikinn mikið betur og náðu mest fimm marka forystu í fyrri hálfleik. Með fínum endasprett náði Löwen að minnka muninn í þrjú mörk fyrir hálfleik 13-10.

Löwen náði að jafna metin í 16-16 þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum en Löwen komst aldrei yfir í leiknum því liðin skiptust á að skora út leikinn og voru Refirnir frá Berlín alltaf á undan.

Patrick Groetzki jafnaði metin á síðustu sekúndu leiksins og tryggði Ljónunum stig en liðsmenn Refanna voru allt annað en sáttir því Groetzki var greinilega lentur þegar hann snéri boltanum laglega í netið.

Aðeins eitt íslenskt mark var skorað í leiknum.  Það skoraði Alexander Petersson fyrir Löwen en félagar hans Stefán Rafn Sigurmannsson og Rúnar Kárason voru ekki með Ljónunum í dag.

Andy Schmid og Uwe Gensheimer skoruðu sex mörk hvor fyrir Ljónin sem Guðmundur Guðmundsson þjálfar.

Bartlomiej Jaszka var markahæstur lærisveina Dags Sigurðssonar með sjö mörk. Jasper Nielsen og Fredrik Petersen skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Refina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×