Innlent

Hafnar greiðsluáskorun slökkviliðsins

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins ekki geta hætt sjúkraflutningum án samstarfs við ríkið.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins ekki geta hætt sjúkraflutningum án samstarfs við ríkið. Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir velferðarráðuneytið ekki munu greiða 516 milljóna króna reikning fyrir sjúkraflutninga frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Slökkviliðið sendi ráðuneytinu greiðsluáskorun þar sem ekki hafi verið staðið við „samkomulagsgrundvöll“ frá í febrúar. Sjúkraflutningunum hafi verið sinnt í nær tvö ár án þess að samningur væri í gildi.

Ráðherra svarar því til að unnið hafi verið eftir samningi sem rann út í árslok 2011 og að greiðslur hafi verið í samræmi við hann. „Ráðuneytið hefur aldrei fallist á greiðslur umfram það. SHS getur ekki ákveðið hækkun greiðslna einhliða,“ segir hann.

Auk kröfunnar á ríkið sendi slökkviliðið Sjúkratryggingum Íslands um 432 milljóna króna reikning.

Þá hafði slökkviliðið tilkynnt að hafin væru verklok á samningnum og uppsagnir á sjúkraflutningamönnum að hefjast. Heilbrigðisráðherra segir bæði ráðuneytið sem verkkaupa og slökkviliðið sem verksala þurfa að standa að slíkum verklokum.

„Verksali getur því hvorki ákveðið einhliða að verklok séu hafin né hvenær þeim skuli ljúka,“ segir ráðherra sem kveður ráðuneytið reiðubúið til viðræðna um áætlun um verklok ef ekki semst um framhald þjónustunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×