Handbolti

Kiel áfram með fullt hús

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/NordicPhotos/Bongarts
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel eru áfram með fullt hús í þýsku úrvaldeildinni í handbolta eftir 32-29 heimasigur á MT Melsungen í kvöld. Rhein-Neckar Löwen er tveimur stigum á eftir en lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar unnu 38-26 útisigur á Hannover-Burgdorf í kvöld.

Kiel hefur unnið sjö fyrstu deildarleiki sína á tímabilinu. Rhein-Neckar Löwen er líka taplaust en hefur gert tvö jafntefli.

Kiel var 13-12 yfir í hálfleik en Melsungen-liðið náði forystunni um tíma í seinni hálfleiknum.

Kiel breytti stöðunni úr 17-18 í 23-20 og var með frumkvæðið í leiknum eftir það.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fimm mörk fyrir Kiel en markahæstur hjá liðinu var Marko Vujin með níu mörk.

Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen í 38-26 útisigri á Hannover-Burgdorf en þeir Stefán Rafn Sigurmannsson og Rúnar Kárason komust ekki á blað.

Bjarte Myrhol og Patrick Groetzki voru markahæstir með sjö mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×