Handbolti

Þjóðverjar upp í annað sætið í A-riðlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Þjóðverjar nýttu sér vel tap Túnis fyrr í dag á HM í handbolta á Spáni og komust upp í annað sætið í A-riðli með öruggum átta marka sigri á Svartfjallalandi, 29-21.

Þjóðverjar voru ekki í alltof góðum málum í riðlinum eftir óvænt tap á móti Túnis á sunnudaginn en hafa svarað því með sigrum á Argentínu og Svartfjallalandi.

Dominik Klein var markahæstur hjá Þýskalandi með fjögur mörk en fimm leikmenn skoruðu þrjú mörk. Fahrudin Melic skoraði mest fyrir Svartfjallaland eða 7 mörk.

Svartfellingar komust í 8-7 eftir 18 mínútna leik en Þjóðverjar svöruðu með fimm mörkum í röð og voru síðan 13-11 yfir í hálfleik.

Svartfjallaland náði að jafna metin í upphafi seinni hálfleiks en í stöðunni 14-14 stungu Þjóðverjar af. Þeir skoruðu sjö mörk í röð og gengu nánast frá leiknum á átta mínútna kafla.

Svartfjallaland sló Svía út úr umspili fyrir HM síðasta sumar en hefur tapað fjórum fyrstu leikjum sínum á Spáni og á ekki möguleika á að komast í átta liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×