Viðskipti innlent

Nýr leikur frá CCP

Hilmar Veigar Pétursson og félagar í CCP kynna leikinn á Gamescom í Köln í dag.
Hilmar Veigar Pétursson og félagar í CCP kynna leikinn á Gamescom í Köln í dag. Myndir/CCP
Tölvuleikjaframleiðandinn CCP tilkynnir í dag um útgáfu á nýjum tölvuleik EVE: Valkyrie. Leikurinn verður kynntur á stærstu leikjaráðstefnu Evrópu, Gamescom í Köln.

EVE: Valkyrie kemur út á næsta ári. Leikurinn byggir á nýrri tækni á sviði sýndarveruleika (e. virtual reality) þar sem spilurum er gefinn kostur á að gerast flugmenn í geimskipum í EVE heiminum.

Leikurinn er hraður og óvæginn þar sem spilarar eigast við í skotbardögum. Sýndarveruleikinn sem leikjahönnun EVE: Valkyrie byggir á gerir upplifunina einstaklega raunverulega og þannig úr garði gerða að það er engu líkara en spilari leiksins sé kominn í flugstjórasæti geimskipsins, þar sem hann mætir óvinum sínum og hættum, að því er segir í tilkynningu frá CCP.

Myndband úr leiknum má sjá hér að neðan.

Fyrsta útgáfa EVE: Valkyrie leit dagsins ljós á EVE Fanfest hátíðinni í Reykjavík í maí síðastliðnum. Í kjölfarið ákvað CCP að þróa hugmyndina áfram og gera nýja útgáfu af EVE-VR til að prufa E3 ráðstefnunni í Los Angeles, stærstu leikjaráðstefnu heims, sem fram fór í júní.

„Það sem byrjaði sem ástríða hjá litlum hópi hæfileikaríkra starfsmanna CCP varð að einum umtöluðustu leikjum ársins – og það áður en við tilkynntum um útgáfu hans,“ er haft eftir Hilmari Veigari Péturssyni í tilkynningu frá CCP.

„Við erum með metnaðarfull áform fyrir EVE: Valkyrie og ég get ekki beðið eftir að við komum fram með frekari upplýsingar um leikinn þegar líður á árið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×