Viðskipti innlent

Hafnfirðingar bjóða Magmabréf til sölu

Þorgils Jónsson skrifar
Bæjarráð Hafnarfjarðar ákvað á fimmtudag að kanna möguleika á sölu skuldabréfs sem bærinn fékk fyrir hlut sinn í HS Orku sem meðal á orkuver í Svartsengi.
Bæjarráð Hafnarfjarðar ákvað á fimmtudag að kanna möguleika á sölu skuldabréfs sem bærinn fékk fyrir hlut sinn í HS Orku sem meðal á orkuver í Svartsengi. Fréttablaðið/Valli
Bæjarráð Hafnarfjarðar fól fjármálastjóra á fimmtudag að kanna möguleika á sölu skuldabréfs sem bærinn eignaðist með sölu á hlut sínum í HS Orku til Magma Energy árið 2009.

Bókfært virði skuldabréfsins er um 193 milljónir og fékk bærinn rúmar 3 milljónir króna í vexti í ár. Bréfið er með einn gjalddaga, sem er í desember 2016.

Guðrún ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir lífeyrissjóði leita að fjárfestingarkostum.
Árið 2010 voru kannaðir kostir þess að selja bréfið en áhugi fjárfesta var enginn að því er fram kemur í minnisblaði sem var kynnt í bæjarráði. Þar var auk þess farið yfir kosti og galla við söluna. Kostirnir eru meðal annars þeir að hægt verði að greiða niður erlend lán, en meðal galla er að verðmæti bréfsins er tengt álverði, sem er í lágmarki um þessar mundir.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri segir að ákvörðun um hvort bréfið verði sett á sölu verði tekin í kjölfar úttektar fjármálastjóra á mögulegu kaupverði. Aðspurð um hugsanlega kaupendur segir hún að þar séu nokkrir valkostir.

„Það er ekkert launungarmál að við erum með lífeyrissjóði í landinu sem eru að leita að góðum fjárfestingarkostum, en svo eru ýmsir sem sitja á fjármagni og aðstæður þannig að það er mögulega vænlegt að kaupa slíkt bréf.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×