Viðskipti innlent

Björgvin hættir að ritstýra Viðskiptablaðinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Björgvin Guðmundsson tók við sem ritstjóri Viðskiptablaðsins í mars 2010.
Björgvin Guðmundsson tók við sem ritstjóri Viðskiptablaðsins í mars 2010. Mynd/Anton
Björgvin Guðmundsson mun hætta sem ritstjóri Viðskiptablaðsins á nýju ári og taka við rekstri KOM almannatengsla ásamt Friðjóni R. Friðjónssyni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannatengslafyrirtækinu. Þeir munu taka við rekstri KOM af stofnanda þess Jóni Hákoni Magnússyni.

Bjarni Ólafsson, blaðamaður Viðskiptablaðsins, mun taka tímabundið við ritstjórnarstarfinu af Björgvini, samkvæmt Viðskiptablaðinu.

Björgvin hefur ritstýrt Viðskiptablaðinu undanfarin fjögur ár og hefur hann á 13 ára ferli í blaðamennsku gegnt ýmsum stjórnunar- og ábyrgðarstöðum. Hann var fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, fréttastjóri á Fréttablaðinu og ritstjóri Markaðarins, svo eitthvað sé nefnt.

Friðjón R. Friðjónsson hefur á undanförnum árum starfað sem almannatengill hjá Aton almannatengslum, Netspori og Góðum samskiptum. Hann var einnig aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar.

KOM er elsta almannatengsla fyrirtæki Íslands, samkvæmt tilkynningunni, og var stofnað árið 1986. Fyrirtækið var stofnað af hjónunum Áslaugu G. Harðardóttur og Jóni Hákoni Magnússyni, ásamt Indriða G. Þorsteinssyni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×