Viðskipti innlent

Greiðsluhalli mun hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir

Samúel Karl Ólason skrifar
Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi.
Ríkisendurskoðun vill að ráðuneytin bregðist við með fullnægjandi hætti þegar greinilegt er að forstöðumenn stofnanna nái ekki að halda rekstri þeirra innan fjárheimilda. Innheimtar tekjur ríkissjóðs voru 29,6 milljörðum króna lægri en greidd gjöld á fyrstu níu mánuðum þessa árs.

Í skýrlsu Ríkisendurskoðunar til Alþingis kemur fram að gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins að fjárhalli á árinu öllu yrði 21,0 milljarðar króna, en á tímabilinu janúar til september er greiðsluhallinn 29,6 milljarðar og stefnir í að vera um og yfir 30 milljarða króna.

Fyrstu níu mánuði ársins voru gjöld 40% fjárlagaliða umfram áætlun en gjöld 60% liða voru undir áætlun. „Nokkur dæmi séu um stofnanir sem ítrekað hafi farið fram úr fjárheimildum og safnað upp halla sem ekki verði séð hvernig rétta eigi af. Þá bendir Ríkisendurskoðun á að bæta þurfi áætlanagerð fjárlaga vegna ýmissa liða, m.a. liða með lög- eða samningsbundnum útgjöldum sem ekki verður breytt með skömmum fyrirvara,“ segir í frétt á vef Ríkisendurskoðunar.

Þá telur Ríkisendurskoðun ekki eðlilegt að forstöðumenn stofni til útgjalda á grundvelli vilyrða ráðherra eða þingmanna um auknar fjárveitingar. „Forstöðumönnum beri skylda til að haga rekstri í samræmi við gildandi fjárheimildir megi ekki auka útgjöld fyrr en Alþingi hafi samþykkt auknar fjárveitingar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×