Viðskipti innlent

Greiðir gamla Landsbankanum 50 milljarða

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að greiðslan gangi inn á höfuðstól skuldabréfanna.
Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að greiðslan gangi inn á höfuðstól skuldabréfanna.
Landsbankinn mun í dag greiða fimmtíu milljarða inn á skuld sína við gamla Landsbankann, LBI hf. Greiðslan verður innt af hendi í erlendri mynt.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að greiðslan gangi inn á höfuðstól skuldabréfanna og lækki hlutfallslega greiðslubyrði bankans vegna þessarar skuldar sem á að koma til greiðslu á árunum 2014 til 2018. Fyrsti umsamdi gjalddagi skuldabréfanna er í janúar 2014 og sá síðasti í október 2018.

„Sterk lausafjárstaða Landsbankans í erlendri mynt gerir honum kleift að lækka skuld sína í erlendri mynt hraðar en samningar kveða á um. Fjármagnskostnaður bankans mun lækka vegna þessarar fyrirframgreiðslu og um leið verður dregið verulega úr veðsetningu á eignum bankans. Lausafjárhlutfall bankans í erlendri mynt verður áfram hátt og mun standast að fullu nýjar kröfur Seðlabanka Íslands þar að lútandi.

Landsbankinn mun áfram þurfa á endurfjármögnun að halda áður en kemur að gjalddögum skuldabréfanna árið 2016. Eins og fram kom í tilkynningu bankans 3. október síðastliðinn á bankinn í viðræðum við LBI hf. um breytingar á skilmálum skuldabréfanna, þar með talið lengingu á lánstíma þeirra," segir í tilkynningu bankans.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×