Viðskipti innlent

Eftirlitsstofnun EFTA samþykkir rekstur Hörpu

Heimir Már Pétursson skrifar
ESA vildi kanna hvort ráðstefnuhald Hörpu væri styrkt af ríki og borg sem kæmi niður á samkeppni
ESA vildi kanna hvort ráðstefnuhald Hörpu væri styrkt af ríki og borg sem kæmi niður á samkeppni
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur komist að þeirri niðurstöðu að fjármögnun á starfsemi Hörpu samræmist ríkisstyrkjareglum EES samningsins. En Eftirlitsstofnunin hefur um skeið haft fjármögnun á starfsemi Hörpu til athugunar, og þá sérstaklega ráðstefnurekstur hússins.

Í tilkynningu frá Hörpu segir að ESA hafi viljað ganga úr skugga um að opinbert fé ætlað til menningarstarfsemi væri ekki nýtt til að niðurgreiða samkeppnisrekstur. Harpa hafi gert stofnuninni grein fyrir sínu rekstrarfyrirkomulagi í byrjun sumars, og lagt áherslu á bókhaldslegan aðskilnað deilda fyrirtækisins og þá skýru stefnu að ráðstefnu- og fundahald í Hörpu ætti að skila arði og greiða sinn hluta af sameiginlegum rekstrarkostnaði hússins.

Halldór Guðmundsson forstjóri Hörpu fagnar þessari ákvörðun. Hann bendir á að með þessu sé allri óvissu um einn mikilvægasta þáttinn í rekstri Hörpu eytt og að það styrki alla starfsemi hússins.

„Á þessu ári hafa tekjur ráðstefnusviðs Hörpu aukist um tæp 50% og við munum nú halda þeirri sókn áfram af fullum krafti,“ segir Halldór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×