Innlent

Engin þjóðarsátt í fjárlagafrumvarpi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins segir að engin þjóðarsátt sé fólgin í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sigldu í strand í byrjun desember útaf ágreiningi um hækkun lægstu launa.

Nokkur verkalýðsfélög hafa vísað sinni kjaradeilu til ríkissáttasemjara sem boðaði til fundar nú í morgun.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir það ráðast á næstu dögum hvort hægt verði að hefja kjaraviðræður á ný.

„Það hefur verið undanfarna daga svona þreifingar á milli aðila. Menn eru að leita leiða til að komast aftur að samningaborðinu. Það er ljóst að það munaði talsvert miklu bæði hvað varðar umfang launahækkana en líka formið. Sérstaklega hvað varðar hækkun lægstu launa. Atvinnurekendur hafa verið að skoða það og eru á fundi núna með þeim samböndum og félögum sem hafa vísað deilunni til ríkissáttasemjara. Við skulum sjá til hvort að það dugi til þess að sé hægt að komast að þessu borði aftur á sameiginlegum vettvangi varðandi þennan svokallaða aðfarasamning,“ segir Gylfi.

Samninganefnd Alþýðusambandsins ætlar að funda um málið í dag en Gylfi segir nauðsynlegt að stjórnvöld leggi sitt af mörkum. Enga þjóðarsátt sé hins vegar að finna í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

„Eins og þetta er lagt fram bæði í fjárlögum og fjáraukalögum er snýr að sérstaklega desemberuppbót þeirra félaga okkar sem eru án atvinnu og reyndar er ýmiss óvissa í menntamála sem þarf að skýra betur en líka varðandi næsta ár þá er alveg af og frá að við getum kvittað upp á þetta sem einhverja þjóðarsátt,“ segir Gylfi.

Vilji stjórnvöld koma til móts við kröfur launþega þurfi að breyta fjárlagafrumvarpinu.

„Varðandi næsta ár þá er ljóst að það er í bígerð mjög harkalegur niðurskurður varðandi þjónustu við atvinnuleitendur. Það er ekki verið að koma til móts við okkur varðandi möguleika þeirra sem eru á vinnumarkaði með litla menntun sem ég hélt að væri samkomulag um. Þannig að það er eitt og annað eftir varðandi velferðarásýnd þessa frumvarps til að þess að það geti orðið eitthvað innlegg í þjóðarsátt,“ segir Gylfi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×