Viðskipti innlent

Hagar ætla að byggja vöruhús undir Banana

Haraldur Guðmundsson skrifar
Verkefnið mun kosta á annan milljarð króna.
Verkefnið mun kosta á annan milljarð króna. Mynd/Vilhelm.
Faxaflóahafnir hafa samþykkt umsókn verslunarfyrirtækisins Haga um lóð undir nýtt vöruhús sem á að hýsa starfsemi Banana ehf. Hagar sóttu þann 3. desember síðastliðinn um lóð númer 1 við Korngarða í Reykjavík. 

Fyrirtækið segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands að stjórn þess hafi í dag samþykkt fjárfestingaáætlun að upphæð allt að 1,3 milljörðum króna til verkefnisins. Lóðin er samkvæmt gildandi deiliskipulagi 16.008 fermetrar en áætlanir eru um að reisa allt að 4.500 fermetra húsnæði í fyrstu, að því er fram kemur í tilkynningunni.

„Starfsemi Banana er í dag í 4.400 fermetra húsnæði við Súðuvog 2e í Reykjavík. Húsnæðið er komið til ára sinna og orðið óhentugt fyrir núverandi starfsemi sem og vaxtamöguleika fyrirtækisins. Auk þess sem skipulagsmál Reykjavíkurborgar hafa áhrif á framtíðarmöguleika á núverandi lóð. Gangi áætlanir félagsins eftir er gert ráð fyrir að rekstur Banana flytji í nýtt húsnæði á sumarmánuðum 2015," segir í tilkynningunni. 

   






Fleiri fréttir

Sjá meira


×