Viðskipti innlent

Fjallabyggð tekur ekki ný lán

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Pjetur
„Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar til næstu fjögurra ára staðfestir ótvíræðan árangur endurskipulagningar í rekstri sveitarfélagsins undanfarin misseri,“ segir í tilkynningu frá Fjallabyggð.

„Bæjarsjóður greiddi niður skuldir í ár umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Yfirlýst markmið til ársins 2017 er að framkvæma fyrir eigin fjármuni bæjarsjóðs án þess að taka ný lán en greiða enn frekar niður skuldir á sama tíma.“

Stefnt er að því að hafa skuldahlutfall Fjallabyggðar verði um 95% af tekjum í lok árs 2014. „til samanburðar má geta þess að viðmiðunarmörk eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga eru 150%. Fjallabyggð stendur að þessu leyti betur en flest önnur sveitarfélög og ætlar sér ekkert minna en að vera til fyrirmyndar í rekstri á landsvísu.“

Fjallabyggð gerir ráð fyrir framkvæmdum fyrir einn milljarð króna á næstu fjórum árum og þar af fyrir 270 milljónir á næsta ári. Þar af fara 175 milljónir króna í framkvæmdir við grunnskólann á Siglufirði.

„Svigrúm hefur með öðrum orðum verið skapað til að gera allt í senn: minnka skuldir bæjarsjóðs án þess að leggja meira á íbúana en halda samt áfram brýnum framkvæmdum og ráðast í nýjar framkvæmdir án þess að fá til þess fjármuni að láni.“

„Slíkir búskaparhættir skapa forsendur fyrir því að draga úr álögum á íbúa Fjallabyggðar þegar til lengri tíma er litið en hvika samt hvergi frá markmiðum um rekstur og framkvæmdir á vegum sveitarfélagins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×